Tap gegn Skallagrími í jöfnum leik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík mistókst að koma sér aftur á beinu brautina í Domino’s deild kvenna í gærkvöldi þegar Skallagrímur kom í heimsókn. Leikurinn var jafn og spennandi framan af en í stöðunni 58-58 þegar 5 mínútur voru til leiksloka fjaraði undan sóknarleik Grindavíkurkvenna og Skallagrímur vann leikinn að lokum, 61-72.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Það er ekki laust við að ákveðin haustbragur hafi litað fyrstu 10 mínútur í leik Grindavíkur og Skallagríms í kvöld þegar Dominosdeildin hófst að nýju kvennamegin. Þegar yfirstóð var það Skallgrímur sem sigruðu 72:61 en þessi lokastaða gefur hinsvegar litla mynd af leiknum í heild sinni sem var jafn allt þangað til síðustu 5 mínúturnar.

Tæknin:
Dómarapar leiksins þeir Ísak Ernir og Davíð Hreiðars skörtuðu nyjum samskiptabúnaði sem dómarar eru hægt og bítandi að koma sér upp. Búnaður þessi er hinsvegar rándýr og óvíst hvenær allur floti dómara verður komin með slíkan búnað.

Vendipunkturinn:

Í stöðunni 58:58 þegar 5 mínútur voru eftir kom vendipunktur leiksins. Næstu 6 stig skoruðu gestirnir frá Skallagrím og eftir það litu þær aldrei tilbaka. Grindavík reyndu hvað þær gátu en Skallagrímur töluvert grimmari og um leið sprækari á lokaspretti leiksins.

Meiðslin:

Ragnheiður Benónísdóttir landsliðskona spilaði ekkert í leiknum en hún meiddist á baki kvöldið fyrir leik. Í samtali eftir leik sagðist hún vona að meiðslin væru ekki alvarlega en hún fékk að hvíla þetta kvöldið.

Baráttan:
Um miðbik leiksins fór hiti að færast í leikmenn og ekki munaði miklu að uppúr syði milli ákveðina leikmanna í leiknum. Ágæt dómarapar leiksins hinsvegar vel tengdir sín á milli og náðu að skakka leikinn vel áður en illa færi.

Hetjan:

Augljóslega var það Tavelyn Tillmann sem var maður leiksins fyrir Skallagrím með 29 stig og 11 fráköst. En þegar mest á reyndi í upphafi leiks var það barátta og vilji Jóhönnu Sveinsdóttur sem hélt gestunum á floti sem svo má segja.

Tölfræðin getur logið:

Með ólíkindum að lið með 12% þriggjastiga nýtingu og 26% nýtingu skota innan þriggjastigalínunar nái að sigra leik. Hinsvegar geta 23 sóknarfráköst hjálpað töluvert að bæta upp slaka skotnýtingu.

Að leik loknum:
Sigur er kannski ekki alltaf verðskuldaður en að þessu sinni var hann það. Skallagrímur var grimmari aðilinn þegar á reyndi og sóknarleikur heimastúlkna koðnaði niður á ögurstundu. Grindavíkurliðið vermir botn deildarinnar en mannskapurinn sem liðið skartar er alls ekki í þeim klassa að eiga að verma þetta botnsæti. Mögulega deildin það sterk þetta árið? Skallagrímur hafa komið sér í 2. sæti deildarinnar með liði Snæfell eftir leiki kvöldsins.

Tölfræði leiksins