Tap á Ásvöllum í jöfnum leik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur gerðu sér ekki ferð til fjár í Hafnarfjörðinn í gær þegar þær töpuðu fyrir Haukum, 65-58. Leikurinn var í járnum nánast fram að 39. mínútu þegar Haukar sigu fram úr og sigldu sigrinum heim. Úrslitin þýða að Grindavík situr nú á botni deildarinnar ásamt Val, með 2 sigra í 8 leikjum. 

Karfan.is var á staðnum:

Haukar unnu góðan liðssigur á Ásvöllum í kvöld þegar þær tóku á móti Grindavík í Domino’s deild kvenna. Fyrir leikinn hafði hvort lið landað tveimur sigrum í deildinni í vetur og sátu í 6.-7. sæti hennar með 4 stig, tveimur stigum á undan Val sem vermdi botnsætið.

Allt í járnum
Grindavík var hænuskrefinu af undan stærstan hluta fyrri hálfleiks, en náði þó aldrei afgerandi forystu og leiddu þær mest með 7 stigum þegar skammt var eftir af öðrum leikhluta. Á þessum tímapunkti virtist vanta alla áræðni í sóknarleik Hauka sem hrukku þó í gang áður en flautað var til hálfleiks og jöfnuðu metinn. Tvö stig frá Ingunni Emblu á síðustu sekúndu fjórðungsins skildu liðin af í hálfleik.

Leikurinn var áfram í járnum í seinni hálfleik og skiptust liðin á að hafa forystu í þriðja leikhluta. Haukar leiddu allan fjórða leikhluta en Grindvíkingar hleyptu heimakonum aldrei langt frá sér. Ashley Grimes fékk tvö góð tækifæri til að minnka muninn niður í 1 stig þegar mínúta var eftir af leiknum en hún nýtti þau ekki og í staðinn setti Michelle Nicole Mitchell niður 2 stig fyrir Hauka sem leiddu með 5 stigum þegar 40 sekúndur voru eftir á klukkunni. Grindvíkingar reyndu allt hvað þeir gátu að jafna en Haukar voru sterkari á lokasekúndunum og unnu 7 stiga sigur, 65-58.

Tölfræðin lýgur ekki
2ja stiga skotnýting Grindavíkur í kvöld var mjög slök og settu þær ekki niður nema 29% skota sinna, þriggja stiga nýtingin var ívið betri eða 40%. Haukar voru með 42% nýtingu í 2ja stiga skotum en að sama skapi með slaka nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna eða 19%. Í jöfnum leik sem þessum, þá eru tapaðir boltar dýrkeyptir og voru 25 tapaðir boltar Grindavíkur of stór biti fyrir þær í kvöld.

Hetjan
Góð liðsheild Hauka landaði sigrinum í kvöld. Þó svo að sóknarleikur liðsins hafi verið helst til handahófskenndur á köflum, þá voru þær áræðnari en oft áður og gerðu vel í vörninni sem skilaði þeim 18 stolnum boltum. Michelle Mitchell var atkvæðamest Hauka með 23 stig og 13 fráköst og þá átti Rósa Björk Pétursdóttir mjög góðan leik og endaði með 13 stig, 8 stoðsendingar, 6 stolna bolta og 6 fráköst.

Kjarninn
Leikurinn í kvöld var virkilega mikilvægur í baráttunni um að halda sig frá botni deildarinnar en Grindavík vermir nú botnsætið með 4 stig líkt og Valur sem sigraði Njarðvík í kvöld. Grindvíkingar virkuðu nokkuð ákveðnar á fyrstu mínútum leiksins og tilbúnar til að sækja tvö stig í Hafnarfjörð en mótspyrna Hauka virtist koma illa við þær. Lið Hauka er skipað ungum leikmönnum sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref í Domino’s deildinni eða að spila mun stærra hlutverk þar en áður. Sigur í jöfnum leik líkt og í kvöld eru því virkilega sterk úrslit fyrir þær og góð viðbót við reynslubankann.

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik