Svona á að gera þetta!

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík jafnaði einvígið við Njarðvík 1-1 eftir öruggan sigur í Ljónagryfju þeirra Njarðvíkinga í undanúrslitarimmu liðanna í körfubolta karla. Lokatölur 95-73 Grindavík í vil. Liðin mætast að nýju næsta föstudag í  Röstinni.

Það var snemma ljóst að Grindvíkingar ætluðu ekki að gefa tommu eftir. Þeir byrjuðu með flugeldasýningu og náðu 12 stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta. Eftirleikurinn var í sjálfu sér auðveldur en gaman var að sjá Earnest Lewis Clinch Jr. hrökkva í gang en hann skoraði 34 stig og fór á kostum. 

Njarðvík-Grindavík 73-95 (13-25, 23-22, 19-25, 18-23)

Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 34, Ómar Örn Sævarsson 18/19 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/18 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 10, Ólafur Ólafsson 8/6 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 8, Hinrik Guðbjartsson 3, Kjartan Helgi Steinþórsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Magnús Már Ellertsson 0.Sigurður Gunnar Þorsteinsson: Vorum brjálaðir eftir fyrsta leikinn

Miðherji Grindvíkinga átti fínann leik fyrir Grindvíkinga í kvöld en kappinn skilaði 14 stigum og 18 fráköstum í hús. Hann var spurður að því hvort leikáætlunin hafi verið að leyfa Njarðvíkingum ekki að spila körfubolta í kvöld.

„Það var nákvæmlega planið í kvöld. Við vorum dálítið brjálaðir eftir síðasta leik, þar sem við vorum með leikinn í höndunum og klúðruðum því. Þannig að við ákváðum að laga sóknarleik okkar á móti svæðisvörn og ganga frá þeim. Það er líka yfirleitt þannig að liðið sem vinnur frákastabaráttuna vinnur leikinn, ég tala nú ekki um þegar lið tekur eins mörg sóknarfráköst og við gerðum í kvöld”.

Um mikilvægi þess að koma strax til baka í rimmunni eftir fúlt tap í fyrsta leik sagði Sigurður: „Það hefði verið erfitt að fara héðan í stöðunni 2-0 og þurfa að vinna þrjá í röð, þannig að það var mjög mikilvægt að jafna seríuna strax. Við munum halda þessu áfram í næsta leik og sé ekki fram á að þurfa að breyta einhverju ef við höldum áfram að hitta eins og við gerðum í kvöld”.

Viðtal: Vísir.is