Grindavík tók á móti taplausu liði Keflavíkur núna á föstudeginum þrettánda. Hvort að þessi meinti óhappadagur hafi haft einhver áhrif á úrslit leiksins skal ósagt látið en leikmenn Grindavíkur virtust þó ekki vera sérlega vel upplagðir í þessum leik og létu dómgæsluna fara hressilega í taugarnar á sér. Leikurinn var nokkuð jafn og liðin skipust á áhlaupum en að lokum voru það Keflvíkingar sem lönduðu sigri, 94-101.
Fréttaritari síðunnar var á leiknum og skrifaði umfjöllun sem birtist fyrst á karfan.is:
Það voru ansi fjörugar upphafsmínúturnar í Mustad höllinni í kvöld þegar heimamenn í Grindavík tóku á móti nágrönnum sínum frá Keflavík. Gestirnir voru enn taplausir í deildinni og Grindvíkingar staðráðnir í að breyta því. Leikurinn fór hratt af stað og liðin skiptust á að hafa forystuna í hnífjöfnum upphafsleikhluta, staðan 26-22 fyrir Grindavík eftir 10 mínútur og heimamenn sennilega nokkuð sáttir með sína frammistöðu gegn toppliðinu.
Leikurinn var áfram í járnum en í stöðunni 35-36, þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar af fjórðungnum, ætlaði allt um koll að keyra inn á vellinum. Dómararnir dæmdu tvívillu á Jóhann Árna og Ágúst Orrason sem Grindvíkingar voru ekki alveg sáttir við og misstu þeir Jóhann Árni Ólafsson og Ómar Örn Sævarsson báðir örlítið kúlið í kjölfarið. Ómar fékk dæmda á sig tæknivillu og villan sem Jóhann fékk dæmda á sig var 3 villan hans á fjórum mínútum og hann kominn með 4 villur. Þeir félagar eyddu því restinni af leikhlutanum á bekknum.
Það er gömul klisja að segja að leikmenn hafi látið dómarana fara í taugarnar á sér en það gerðu Grindvíkingar svo sannarlega í þessum leik. Vafaatriðin voru ekki að falla með þeim í þessum leik og það virtist pirra þá töluvert. Eric Wise virkaði einnig pirraður og úr takti við leikinn. Hann lét verja frá sér skot snemma leiks og virtist ekki ná að finna taktinn í teignum eftir það. Hann tók aðeins þrjú vítaskot í leiknum en fannst eflaust að þau hefðu átt að vera miklu fleiri.
Á meðan Grindvíkingar höfðu allt á hornum sér og gerðu ýmis klaufaleg mistök var stemmingin öll Keflavíkurmegin. Bekkurinn fagnaði hverri körfu eins og um úrslitastigin væri að ræða og Keflavík sigldi inn í hálfleik með 7 stiga forskot, 44-51. Earl Brown Jr. fór mikinn í fyrri hálfleik og var með 15 stig og Guðmundur Jónsson 12. Hjá heimamönnum var Þorleifur Ólafsson atkvæðamestur í fyrri hálfleik með 13 stig, þar af þrjá þrista.
Keflvíkingar opnuðu seinni hálfleik með 7-0 áhlaupi og staðan orðin 58-44. En Grindvíkingar brotnuðu ekki við áhlaupið heldur náðu vopnum sínum á ný, og þá ekki síst þriggja stiga skotunum en þeir settu 6 slík í leikhlutanum og unnu hann að lokum, 27-21. Jóhann Árni var drjúgur í leikhlutanum og setti 2 þrista og 8 stig og virtist það ekki hafa mikil áhrif á leik hans að hann væri að spila með 4 villur. Staðan fyrir lokafjórðunginn var því 71-72 og allar forsendur til staðar fyrir æsispennandi og skemmtilegar lokamínútur.
En í stöðunni 74-74 varð ákveðinn vendipunktur í leiknum. Grindvíkingar höfðu fram að því haldið haus og spilað skynsamlega. Páll Axel fékk þá dæmda á sig villu fyrir litlar sakir og kvartaði lengi í dómurum leiksins. Hann var ekki einn um að kvarta því Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var hreinlega alveg hoppandi vitlaus á hliðarlínunni og fékk í kjölfarið dæmda á sig tæknivillu.
Í kjölfarið misstu Grindvíkinar öll tök á leiknum og Keflvíkingar virtust tvíeflast. Fátt gekk upp hjá heimamönnum á lokamínútunum meðan og Keflvíkingar lönduðu að lokum sigri, 94-101.
Earl Brown Jr. lauk leik með 28 stig og 13 fráköst, en þar fyrir utan hafði hann Eric Wise algjörlega í vasanum bróðurpartinn af leiknum. Wise virkaði mjög pirraður en hann setti aðeins niður 4 skot í 14 tilraunum. Hann setti aftur á móti 3 þrista í sex tilraunum, svo það er spurning hvort hann verði færður í bakvörðinn í næsta leik?
Earl Brown Jr. var stigahæstur allra á vellinum en hjá Keflavík komu þeir Reggie Dupree og Guðmundur Jónsson næstir, báðir með 19 stig. Valur Orri Valsson átti líka fínan leik með 14 stig, 3 af 4 í þriggja, 7 stoðsendingar og 6 fráköst.
Hjá Grindavík dreifðist skorið nokkuð jafn á efstu menn. Jón Axel var með 19 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson og Eric Wise komu næstir með 18 stig og Wise tók einnig 9 fráköst. Jóhann Árni kom svo næstur með 16 stig.