Sundmaraþon næstu helgi

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Sund

Sunddeild UMFG hefur ákveðið að halda sundmaraþon næstkomandi helgi, eða dagana 28. – 30. október, og mun það hefjast kl 14:00 næsta föstudag og enda á sunnudaginn kl 14:00. Það er öllum velkomið að koma við og sýna stuðning og fá sér jafnvel kaffi og hvetja krakkana um helgina. Að þessu sinni verður áheitum safnað til styrkja Jóhannes Hilmar Gíslason sem glímir við sjaldgæfan hrörnunarsjúkdóm.

Jóhannes er með mjög sjaldgæfan hrörnunarsjúkdóm sem kallast orkukornasjúkdómur. Hann greindist fyrir 8 árum en það er ekki búið að greina annan í heiminum með hans gerð af sjúkdómnum. Sjúkdómurinn hefur áhrif á mikilvæga vöðva líkamans sem eru orkufrekir, veldur miklu lystarleysi svo hann fékk sondu fyrir 6 árum og nærist alfarið gegnum hana. Hann fékk flogakast fyrir 5 árum og er á lyfjum sem halda einkennum í skefjum. Hann þreytist fljótt því vöðvarnir hans fá ekki næga orku til að starfa. Hann hefur smátt og smátt misst sjónina og er með ca 10% sjón, greinir t.d. ekki andlit og ef það er mikil birta, t.d. í sól, eða rökkur, þá sér hann ekkert. Hann veiktist í lok nóvember 2014 af hjartabilun og var allan þann vetur mjög veikur, gat lítið farið í skólann, var liggjandi allan daginn og svaf mikið. Hann notast nú við hjólastól því hann þreytist svo mikið við að ganga stuttar vegalengdir. Hann er í FS á starfsbraut núna í 3-4 klst. á dag.

Sunddeild UMFG hvetur fólk og fyrirtæki til að heita á sundmennina okkar sem eru á leikskóla, grunnskóla og framhaldsskólaaldri. Einnig að koma og synda með okkur og fá sér kaffisopa.
Leggja má inn á reikning Jóhannesar Hilmars: 0143-26-090900 Kt. 090900-3070