Það er mikið að gerast hjá Golfklúbbi Grindavíkur um þessar mundir. Í sumar verða fimm nýjar holur opnaðar auk þess sem verið er að byggja nýjan golfskála. Völlurinn kemur ótrúlega vel undan vetri og er ástandið á flötunum eins og best gerist á sumri til.
“Völlurinn er í lygilega góðu ástandi, ég hef aldrei séð flatirnar svona góðar í mars. Það er búið að valta þær og það er eins og við séum að spila í maí,” segir Jón Júlíus Karlsson, ritari og formaður mótanefndar Golfklúbbs Grindavíkur við Fréttablaðið. Húsatóftavöllur kemur ótrúlega vel undan vetri og er mál manna að hann hafi aldrei litið betur út en nú. “Völlurinn hefur tekið vel við sér og er í raun alveg frábær. Við erum í skýjunum með hann en þetta er allt okkar frábæra vallarstjóra að þakka,” segir Jón Júlíus.
Þegar er búið að halda tvö mót á vellinum og voru bæði spiluð á sumarflötum. Þriðja mótið verður svo haldið í dag, laugardag, svokallað Skálamót en allur ágóðinn rennur til styrktar nýjum skála sem Golfklúbburinn er að byggja. “Við héldum eitt svona mót og náðum þá að niðurgreiða parketið á nýja skálann og næst á döfinni er að niðurgreiða eldhústækin,” segir Jón Júlíus.
Aðeins hafa þrettán holur verið á Húsatóftavelli síðustu ár en um miðjan júní eða í byrjun júlí verða opnaðar fimm nýjar brautir – völl
urinn verður þá fullvaxinn. “Völlurinn verður með skemmtilegri almenningsvöllum landsins eftir að við opnum nýju holurnar,” segir Jón Júlíus. Hann segir uppganginn í golfinu í Grindavík hafa gengið vonum framar undanfarin ár. “Það eru um 220 í klúbbnum núna en þeim gæti fjölgað stíft í ár. Við erum í raun bara að biðla til fólks að ganga í klúbbinn,” segir ritarinn en árgjaldið er um 55 þúsund krónur fyrir einstaklinga. Þá er ódýrara fyrir þá sem hafa aldrei verið í golfklúbbi og hjón fá afslátt.
Að sögn Jóns Júlíusar hefur ekki verið afreksstefna hjá Golfklúbbi Grindavíkur síðustu ár en nú á að gera bragarbót á. “Við erum búin að stofna félag betri kylfinga í GG með það að markmiði að búa til kylfinga sem verða samkeppnishæfir við þá bestu og þá hefur stjórnin lagt mikið púður í að efla unglingastarfið. Í Grindavík eru íþróttamenn í fótbolta og körfubolta sem eru meðal þeirra bestu á landinu og okkar markmið er að eiga kylfinga sem eru með þeim bestu,” segir Jón Júlíus og nefnir þar meðal annars Davíð Arthur Friðriksson, sexfaldan klúbbmeistara. “Við gerum okkur vonir um að hann muni láta að sér kveða strax í sumar. Þetta er flottur strákur sem á mikið inni.”