Styttist í Lífshlaupið – Áskorun til Grindvíkinga

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ísland á iði, stendur fyrir Lífshlaupinu, vinnustaðakeppni, hvatningarleik fyrir grunnskóla og einstaklingskeppni um allt land dagana 1. – 21. febrúar. Meginmarkmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni daglegu hreyfingu í frítíma, heimilisstöfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.

Skrá má alla hreyfingu inn á vef verkefnisins, lifshlaupid.is, svo framarlega sem hún nær ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um hreyfingu. Börn og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag og fullorðnir a.m.k. 30 mínútur á dag.

Keppnisflokkarnir eru 7 eftir fjölda starfsmanna á vinnustaðnum:
Vinnustaðir raðast upp í eftirfarandi flokka eftir heildar fjölda starfsmanna á vinnustaðnum: 3-9 starfsmenn, 10-29 starfsm., 30-69 starfsm., 70-149 starfsm.,150-399 starfsm., 400- 799 starfsm. og 800 o.fl. starfsm.

Keppnisgreinarnar eru 2:
1) Flestir þátttökudagar (hlutfallslega m.v. heildar fjölda starfsmanna á vinnustaðnum).
2) Flestar mínútur (hlutfallslega m.v. heildar fjölda starfsmanna á vinnustaðnum).
Glæsilegir verðlaunaskildir er veittir fyrir efstu þrjú sætin í hverjum flokki
Liðstjóri heldur utan um sitt lið
Hvert lið má innihalda 1-10 liðsmenn. Í hverju liði er liðsstjóri sem sér um sitt lið. Liðsstjóri getur sjálfur séð um að skrá sína liðsmenn til þátttöku eða hvatt þá til þess að skrá sig sjálfir inn á vefinn og tengjast sínu liði og skrá árangurinn sinn inn á vefinn.

Verður þinn vinnustaður með í Lífshlaupinu í ár?
Að lokum hvetjum ykkur til að hefja undirbúning tímanlega, byrja að ýta við ykkar fólki og hugleiða hvernig þið getið nýtt Lífshlaupið í víðasta skilningi til að efla hreysti og stemningu á ykkar vinnustað.

Reglur
Það er einlæg von þeirra sem standa að Lífshlaupinu að verkefnið ýti við sem flestum af stað í reglulega hreyfingu og hvetji fólk til að taka upp heilsusamlegra líferni. Til þess að fyrirbyggja misskilning höfum við sett fram eftirfarandi reglur.

Hverjir eru gjaldgengir þátttakendur?
Allir sem hafa áhuga á því að taka þátt í Lífshlaupinu geta tekið þátt fyrir sinn vinnustað.
Hámarks fjöldi í lið Hámarks fjöldi liðsmanna í hverju liði er 10. Ef fleiri en 10 starfsmenn ætla að taka þátt þarf að stofna nýtt lið undir vinnustaðnum.
Hvað má skrá?
Alla miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu sem stunduð er utan vinnutíma. Til þess að fá einn dag skráðan þarf að hreyfa sig að lágmarki í 30 mínútur sem skipta má upp í nokkur skipti yfir daginn, t.d. 10 – 15 minútur í senn. Sjá nánari skilgreiningar undir „Hreyfiráðleggingar” á www.lifshlaupid.is. Ath. einungis er leyfilegt að skrá vikuleg heimilisþrif sem svo sannarlega fela í sér miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu.
Skráning – NÝTT Einungis er hægt að skrá hreyfingu í keppnina 10 daga aftur í tímann.
Hvað má ekki skrá? Ekki er heimilt að skrá þá hreyfingu sem fellst í starfi einstaklinga. Það er, ef einstaklingur vinnur við það að bera út póst 8 klukkustundir á dag er honum ekki heimilt að skrá 8 klukkustundur í göngu fyrir þann dag.
Hvaða starfsmannafjölda á að gefa upp?
Skrá á þann starfsmannafjölda sem launadeild viðkomandi vinnustaðar hefur á launaskrá þegar keppni hefst, óháð starfshlutfalli. Ef einhverjir starfsmenn eru í orlofi eða námsleyfi á þeim tíma sem Lífshlaupið fer fram má draga þann fjölda frá þegar starfsmannafjöldinn er skráður.
Framlag hvers og eins telur. Í anda almenningsíþrótta er leikurinn byggður upp þannig að framlag hvers og eins hjálpar til, hversu lítið sem það er – Allt er betra en ekkert.