Strákarnir í stuði

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Íslandsmeistarar Grindavíkur sýndu mátt sinn og megin með því að rassskella Njarðvíkinga í Röstinni í gærkvöldi með 107 stigum gegn 81 í úrvalsdeild karla í körfubolta. Grindvíkingar náðu strax yfirhöndinni og komust í 22-4 eftir fjögurra mínútna leik.

Hinn bandaríski Samuel Zeglinski fór á kostum í upphafi leiks en þessi strákur hefur vakið athygli í upphafi móts. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 31-17 og í hálfleik var munurinn orðinn 25 stig, 63-38.

Seinni hálfleikur var í rólegri kantinum enda yfirburðir Grindvíkinga miklir. Yngri leikmenn fengu kærkomið tækifæri og settu niður nokkur stig.

Grindavík-Njarðvík 107-81 (31-17, 32-21, 26-13, 18-30)

Grindavík: Samuel Zeglinski 26/10 fráköst/5 stoðsendingar, Aaron Broussard 21/8 fráköst/9 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 17/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 13/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 13, Björn Steinar Brynjólfsson 10, Hinrik Guðbjartsson 4, Jens Valgeir Óskarsson 2, Ármann Vilbergsson 1, Davíð Ingi Bustion 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Ómar Örn Sævarsson 0/4 fráköst.

Staðan í deildinni er þessi:

1. Snæfell 4 3 1 412:344 6
2. Grindavík 4 3 1 395:355 6
3. Fjölnir 4 3 1 333:320 6
4. Stjarnan 4 3 1 362:334 6
5. KFÍ 3 2 1 248:272 4
6. Þór Þ. 4 2 2 331:336 4
7. KR 4 2 2 328:349 4
8. Skallagrímur 3 2 1 262:239 4
9. ÍR 3 1 2 251:271 2
10. Njarðvík 4 1 3 319:348 2
11. Keflavík 3 0 3 246:281 0
12. Tindastóll 4 0 4 303:341 0

Sverrir Sverrison: Mjög góður leikur hjá strákunum
“Við spiluðum bara mjög vel í dag”, sagði Sverrir Þór Sverrisson við Vísi eftir öruggan sigur sinna manna í Grindavík í gærkvöld. “Það mættu allir tilbúnir og við spiluðum góða vörn og hittum vel í sókninni. Það eina sem ég er ósáttur með er að einn leikmaður hjá þeim tók 12 sóknarfráköst og var okkur erfiður, ég hefði viljað stíga hann betur út. En að öðru leiti var þetta bar mjög gott hjá okkur.”

“Ég var mjög ánægður með varnarleikinn þeir ná reyndar að skora 81 stig en þar af eru 30 stig í 4 leikhluta þar sem úrslitin voru ráðin og menn farnir að slaka á. Það var mikil kraftur í strákunum í dag og það voru allir að leggja sig fram, boltinn var að ganga vel og við að hitta vel. Þetta var bara flottur leikur og góður sigur.”

“Sóknarleikurinn var mjög fjölbreyttur hjá okkur í kvöld við vorum að fá allskonar körfur, 3 stigakörfur, skot úr teignum og undir körfunni og auðveldar körfur líka. Eins og ég segi þá var þetta bara heilt yfir mjög góður leikur hjá okkur í kvöld.