Stórt tap á Hlíðarenda

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur heimsóttu Val á Hlíðarenda í gær í leik sem leit út fyrir að ætla að verða spennandi í byrjun en enda með stórum sigri Valskvenna. Eftir fyrsta leikhlutann var staðan 15-15 en eftir það settu Valskonur í lás og kafsigldu Grindavík algjörlega. Lokatölur 103-63 og 40 stiga tap staðreynd.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Síðasti leikur 5. umferðar Dominosdeildar kvenna fór fram að Hlíðarenda í dag þegar Valur og Grindavík mættust. Fyrir leikinn sat Valur á botni deildarinnar án stiga og Grindavík litlu ofar með 2 stig.

Þáttaskil
Fyrsti leikhluti gaf fyrirheit um að leikurinn yrði jafn og spennandi og var staðan að honum loknum jöfn 15-15. Raunin varð þó allt önnur því strax á fyrstu andartökum annars. leikhluta tóku Valskonur öll völd á vellinum. Hallveig byrjaði leikhlutann af miklum krafti og kveikti neistann hjá liðsfélögum sínum Það stóð ekki steinn yfir steini í vörn gestanna og litlu skipti þó Björn þjálfari þeirra tæki tvö leikhlé með stuttu millibili og breytti um varnartaktík. Í hálfleik var staðan 54-32 fyrir Völsurum. Í seinni hálfleik vara sama upp á tenignum. Leikmenn Vals skoruðu af vild og útlitið orðið ansi dökkt fyrir lið Grindavíkur sem segja má að hafi játað sig sigraða löngu áður en leiknum lauk og sátu lykilleikmenn á bekknum nær allan fjórða leikhluta. Lokatölur voru hreint út sagt ótrúlegar 103-63.

Tölfræðin
Eins og lokatölurnar gefa til kynna er tölfræðin Val í hag, Valsarar voru með betri skotnýtinu, tóku 10 fleiri fráköst, stálu boltanum helmingi oftar en Grindvíkingar og svo mætti áfram telja. Grindavíkurstúlkur töpuðu boltanum 22 sinnum sem skilaði sér í mörgum auðveldum körfum hjá Val sem skoruðu til að mynda 18 stig í röð í fjórða leikhluta.

Hetjan
Liðsheild Vals var sterk í kvöld. Hallveig átti mjög góðan leik, kom inn af bekknum skoraði 22 stig á 23 mínútum. Hún var heit fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður 4 af 6 skotum. Mia L átti líka fína spretti, skilaði 30 stigum, 8 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Kjarninn
Segja má að liðsheild Grindavíkur hafi verið jafn veik og liðsheild Vals var sterk í kvöld. Andleysi einkenndi leik liðsins og margir lykilmenn langt frá því að skila sínu. Þó þungu fargi sé án efa létt af leikmönnum og þjálfurum Vals þegar fyrstu stigin eru komin í hús er liðið þó engu að síður á botninum ásamt Grindavík og Haukum.

Tölfræði leiks