Stórleikur annað kvöld í DHL höllinni

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Flestir körfuboltaunnendur þekkja þann netta pirring sem hellist yfir það við langa leit að bílastæði við DHL-Höllina. En þegar hann er horfinn, þá er DHL-Höllin einn skemmtilegasti staður til að njóta góðs körfubolta. Þetta verður hlutskipti okkar Grindvíkinga á morgun þegar við höldum í Frostaskjólið.

Strákarnir hafa farið vel af stað og ekki tapað ennþá, þó endrum og eins hafi tapið verið handan við hornið og hurð nokkrum sinnum skollið nærri hælum. KR-ingar eru að vanda með hörku lið og þess vegna um ansi áhugaverðan leik að ræða. 

Þrátt fyrir gott gengi eru nokkrir leikmenn í okkar liði sem ættu að eiga þó nokkuð inni enn þá. Þessir menn þrífast á slíkum leikjum. Margir tala um að þetta verði okkar fyrsta alvöru prófraun. Hafa ber í huga að það styttist alltaf í tapið þegar að vel gengur. Þrátt fyrir það eru okkar menn staðránir í því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leggja KR-inga á morgun. Til þess þurfa strákarnir ykkar stuðning.
Áhorfendur góðir. Þið eigið líka mikið inni og á morgun er tækifærið til að mæta á hörku leik og sleppa sér vel, hreinsa hugann og koma svo vel stemmd í jólaundirbúninginn.

Við hvetjum fólk að mæta í DHL-Höllina á morgun og hvetja okkar menn til sigurs. Eins og áður segir er hvergi skemmtilegra að vera en vestur í bæ og horfa á góðan körfuboltaleik.

Áfram Grindavík.