Stóri bikardagurinn er runninn upp!

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Nú er stóri dagurinn runninn upp. Grindavík og Stjarnan mætast í úrslitaleik bikarkeppninnar í körfubolta karla í Laugardalshöll kl. 16:00. Stjörnumenn eru komnir aftur í Höllina fjórum árum eftir að þeir unnu eftirminnilegan sigur á stórskotaliði KR. Að þessu sinni eru mótherjarnir Grindavík sem er að mæta í Höllina í þriðja sinn á fjórum árum en hefur þurft að sætta sig við silfur í hin skiptin.

Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells spáir í leikinn í Fréttablaðinu í dag:

 

„Liðin eru að koma inn í leikinn á gjörólíkum forsendum. Grindavík er kannski ekki búið að spila besta boltann en er búið að gera það sem þarf til að vinna og er að komast á mikilli sigurgöngu inn í leikinn. Á meðan er Stjarnan búin að tapa fjórum leikjum í röð í deildinni og öllum þremur eftir að þeir unnu okkur í bikarnum. Nú er bara stóra spurningin hvort Stjörnumenn hafi verið með alla einbeitingu á bikarinn og hafi verið að bíða eftir stórleiknum,” segir Ingi en Stjarnan vann Snæfell með 21 stigs mun í undanúrslitum keppninnar og það í Stykkishólmi.

Þurfa að stoppa Shouse

„Grindvíkingar verða að stoppa hann því mér finnst það vera algjört lykilatriði hjá Stjörnunni að hann nái að tengja liðið saman og stýra þessu. Að sama skapi hinum megin þá finnst mér Jóhann Árni (Ólafsson) og Lalli (Þorleifur Ólafsson) vera lykilmenn. Siggi (Sigurður Gunnar Þorsteinsson) og útlendingarnir munu gera sitt en Jói og Lalli þurfa að vera góðir til þess að Grindavík vinni,” segir Ingi Þór enn fremur.

Stjörnumenn voru litla liðið þegar þeir unnu KR 2009 en svo er ekki nú að mati Inga. „Stjörnumenn eru ekkert litla liðið þótt þeir séu bara í sjötta sæti í deildinni og ef eitthvað er eru þeir stóra liðið. Bæði liðin eru gríðarlega vel mönnuð og ég vonast til þess að þessi leikur verði frábær,” segir Ingi Þór en hvernig fer?

„Ég ætla að spá Grindavík sigri því ég hef tilfinningu fyrir því án þess að hafa einhver sérstök rök fyrir því. Ég vonast til að þetta verði sýning í báðum leikjum, skemmtilegir með bullandi dramatík í lokin, flotta sigurkörfu eða eitthvað. Þetta eru tveir risaleikir,” segir Ingi Þór. Fréttablaðið fékk fimm aðra úr Dominos-deildinni til að spá og eru fjórir þeirra sammála Inga.