Stólarnir léku Grindvíkinga grátt í Mustad-höllinni í kvöld

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Það hljómar kannski eins og klisja en Tindastólsmenn mættu miklu ákveðnari til leiks í Grindavík í kvöld en heimamenn. Þeir byrjuðu leikinn 2-7 og Grindavík var 1-11 í skotum, þar til að Bullock setti langan tvist. Vörnin hjá Stólunum var harðlæst frá fyrstu mínútu og það skilaði sér ítrekað í auðveldum körfum hinumegin á vellinum. Stólarnir unnu alla leikhluta og bilið á milli liðanna stækkaði eftir hvern þeirra og endaði í algjörri einstefnu í lokin, lokatölur Grindavík 83 – Tindastóll 114.

Gangur leiksins

Það virtist ekkert rata ofan í hjá Grindavík í byrjun, þeir voru 6-21 í skotum eftir 1. leikhluta, en þegar betur var að gáð var nýtingin ekki mikið skárri hjá Stólunum 8-23, og þar lá ca munurinn eftir 1. leikhluta, 14-20. Stólarnir leiddu með 9 stigum hálfleik og var varla hægt að útskýra þann mun ef litið var í tölfræðina. Grindavík var yfir í fráköstum, 29-23, og munur í öðrum tölfræðiþáttum innan skekkjumarka, nema þá í þristunum, þar sem stólarnir sóttu einmitt 9 stigum meira en Grindavík.

Munurinn á liðunum í hálfleik lá kannski helst í þáttum sem er ekki hægt að lesa útúr tölfræði. Vörnin hjá gestunum var hörð og 3 leikmenn komnir með 3 villur í hálfleik. Litlu hlutirnir voru að falla með þeim.

Klórað í bakkann

Grindavík bætti í ákafann í seinni hálfleik en tvisvar á skömmum tíma misstu þeir varnarfrákast útaf því að tveir leikmenn reyndu að taka sama boltann, sem er kannski lýsandi fyrir hvar litlu hlutirnir voru að lenda í þessu leik. Alltaf þegar Grindavík minnkuðu muninn tóku Stólarnir áhlaup á móti. Grindvíkingar náðu að minnka muninn í 53-59 um miðjan þriðja leikhluta en eftir það skildu leiðir. Ekkert gekk upp hjá Grindvíkingum meðan Stólarnir skoruðu nánast að vild og vonleysið var orðið algjört undir lokin hjá Grindavík, enda ekki á hverjum degi sem þeir tapa með 31 stigi á heimavelli í úrslitakeppninni.

Hetjan

Grindvíkingar réðu ekkert við Antonio Hester sem skoraði körfur í öllum regnbogans litum. Það virtist litlu máli skipta hvort hann hnoðaðist í gegnum teiginn eða tók erfiða langa tvista, það var nánast allt ofan í. Hann endaði með 28 stig og 13/17 í skotum. Þá lék Sigtryggur Arnar Björnsson einnig á alls oddi og setti nokkra stóra þrista og alls 26 stig. Það er ekki að sjá að þarna fari leikmaður sem er meiddur í nára.

Niðurstaðan

Grindvíkingar virtust algjörlega heillum horfnir í þessum leik. Frammistaða þeirra í kvöld og á Sauðárkróki í síðasta leik er eins og svart og hvítt. Nú eru Grindvíkingar komnir ofan í djúpa holu og þurfa að taka á öllu sem þeir eiga ef þeir ætla ekki í sumarfrí á föstudaginn. Þeir hafa þó oft sýnt að þeir gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana og má án vafa búast við hörkuleik í Skagafirðinum þar sem bæði lið munu leggja allt sem þau eiga í hann.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Viðtöl eftir leik: