Grindavík tók á móti KR í gærkvöldi í leik sem fyrirfram hefði sennilega flokkast sem svokallaður skyldusigur fyrir heimastúlkur. Þær gulklæddu hafa verið á góðri siglingu undanfarið og unnið 5 deildarleiki í röð en KR hafa aðeins unnið 3 leiki alls í vetur.
Leikurinn fór hægt af stað ef tekið er mið af skorinu, en staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-10. Leikurinn var þó raun ansi hraður, og kannski full hraður fyrir KR-inga sem töpuðu alls 15 boltum í fyrri hálfleik og 29 áður en leikurinn var á enda. Grindvíkingar pressuðu stíft allan völlinn nánast allan leikinn og þvinguðu þannig fram marga tapaða bolta hjá KR. Grindavíkurstúlkur komu ákveðnar og einbeittar til leiks í öðrum leikhluta og skoruðu nánast af vild en KR-ingar gáfust þó ekki upp og náðu að hanga í þeim með góðri þriggja stiga nýtingu og tíðum ferðum á vítalínuna. Staðan í hálfleik var 45-31 og allt útlit fyrir að Grindvíkingar væru hægt og rólega að leggja grunninn að öruggum sigri.
Eitthvað hefur Hörður Unnsteinsson þó náð að kveikja í sínum stúlkum með hálfleiksræðunni því þriðji leikhlutinn var eign KR. Grindvíkingar virtust vera orðnar full sigurvissar og fóru að slaka á pressunni og gengu KR-ingar á lagið. Sumum þótti líka halla full mikið á Grindavík hjá dómurum leiksins en alls fengu þær dæmdar á sig 23 villur í leiknum en KR aðeins 11. María Ben fékk sína 3. villu strax í fyrri hálfleik og ákvað Sverrir því að geyma hana á bekknum. Hún átti þó eftir að koma aftur inná og skila sínu og rúmlega það en hún endaði með 20 stig og aðeins 7 fráköst á aðeins 20 mínútum.
Fyrir lokaleikhlutann var staðan orðin 58-52 og munaði því aðeins 6 stigum á liðunum. Þá sögðu Grindavíkurstúlkur hingað og ekki lengra. Þær byrjuðu leikhlutann af ótrúlegum krafti og grimmd, pressuðu stíft og yfirdekkuðu og þvinguðu fram þrjár afleitar sendingar hjá KR í fyrstu 30 sekúndum leikhlutans sem allar enduðu með körfu Grindvíkinga. Á rúmri mínútu breyttist staðan í 70-54 og Grindvíkingar aftur komnar í bílstjórasætið og gáfu það ekki eftir það sem eftir lifði leiks.
Sigur Grindavíkur í kvöld var fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar. Allir leikmenn lögðu sig 100% fram í vörn og sókn, en þó ekki síst í pressuvörninni sem útheimtir mikla orku og baráttu. Boltinn gekk vel í sókninni og margir leikmenn voru að skila drjúgum stigum. Að öðrum leikmönnum ólöstuðum var það hin bandaríska Kristina King sem var maður leiksins en hún var hæst í svo til öllum tölfræðiþáttum liðsins. Skoraði 27 stig, tók 11 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 6 boltum. Undir lokin fór þriggja stiga skotið líka að detta hjá henni sem þýddi að KR-ingar neyddust til að dekka hana þétt sem leiddi einfaldlega til þess að hún keyrði framhjá þeim og kláraði upp við körfuna.
Hjá KR voru nokkrir einstaklingar að spila vel en liðið náði illa saman sem heild og vandræðagangurinn við að koma boltanum yfir miðjuna var oft átakanlegur á að horfa. Leikstjórnandinn Björg Einarsdóttir átti góðan leik sóknarlega, setti 4 þrista í 6 tilraunum og skoraði 23 stig. Hún tapaði aftur á móti 5 boltum. Bergþóra Holton átti líka góða spretti með 18 stig en 8 tapaða bolta og hin bandaríska Simone Holmes virtist oft á tíðum hreinlega ekki vera viðstödd leikinn andlega. Hún setti 16 stig með hangandi hendi og tapaði 5 boltum.
Maður leiksins: Kristina King, Grindavík
Grófasti maður leiksins: Berglind Anna Magnúsdóttir, Grindavík. 5 villur á 8 mínútum.
Þessi umfjöllun birtist áður á karfan.is