Stemmning á pöllunum eykur líkurnar á velgengni

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík mætir nágrönnum sínum í Njarðvík í Röstinni kl. 19:15 í kvöld. Það tók Grindavík ekki nema nokkrar klukkustundir að ráða eftirmann Helga Jónasar Guðfinnssonar sem þjálfara Grindavíkurliðsins í vor eftir að hann tilkynnti að hann hætti á toppnum sem Íslandsmeistari. Efnilegasti þjálfari landsins, Sverrir Þór Sverrisson, sem gerði kvennalið Njarðvíkur að tvöföldum meisturum á síðustu leiktíð, var ráðinn til starfans. En stóð ekkert í honum að taka við sjálfum Íslandsmeisturunum?

„Nei alls ekki. Ég leit á þetta sem spennandi tækifæri. Ég var búinn að segja Njarðvíkingum að ég hefði áhuga að vera þar áfram nema að mér biðist stórt tækifæri í karlaboltanum. Grindavík er klárlega eitt af stóru liðunum og þegar þeir höfðu samband lét ég Njarðvík vita af þeirra áhuga. Samningaviðræðurnar gengu svo hratt fyrir sig,” segir Sverrir.

Grindavík hefur farið vel af stað undir stjórn Sverris. En hver er hans körfuboltahugmyndafræði?

„Ég legg mikla áherslu á að spila góða vörn og hraðan leik. Ég er ekki mikið fyrir göngubolta. Ég legg mikið upp úr því að þeir fimm sem eru á gólfinu hverju sinni séu virkilega að spila á fullum krafti. Þess vegna er gott að vera með stóran leikmannahóp eins og núna. Við erum með reynslumikla Íslendinga, flotta efnilega unga stráka og góða útlendinga. Ég er því bjartsýnn fyrir veturinn. Við erum með allt sem þarf til að berjast um þessa stóru titla og höfum ekkert farið í felur með það að við ætlum okkur að vinna titla. Við höfum trú á því að við getum það þrátt fyrir að reikna megi með mjög jafnri deild,”  segir Sverrir.

Hann vonast til þess að Grindvíkingar mæti vel á leiki í vetur. „Það var hörku góð mæting í fyrra, sérstaklega þegar leið á veturinn. Þegar góð lið hafa meðbyr og stemmningu á áhorfendapöllunum eykur það líkurnar á velgengni,” sagði Sverrir Þór Sverrisson að endingu.

Viðtalið við Sverri Þór verður birt í heild sinni í leikskrá körfuknattleiksdeildarinnar sem kemur út á næstunni.