Grindavíkurkonur fóru vel af stað í 1. deildinni í fyrsta leik tímabilsins núna á laugardaginn, þegar þær tóku á móti Njarðvík. Grindavík komst í 13-2 í upphafi leiks og má segja að þar með hafi tónninn verið settur fyrir leikinn og var sigur Grindavíkur aldrei í mikilli hættu en lokatölur leiksins urðu 79-66.
Hrund Skúladóttir fór hamförum gegn sínum gömlu félögum í Njarðvík og setti 30 stig, og bætti þar fyrir utan við 14 fráköstum og 6 stolnum boltum.
Það er spennandi vetur framundan hjá Grindavík í 1. deildinni en liðið var afar ungt og efnilegt í fyrra. Kjarninn af ungu leikmönnum er enn á sínum stað, reynslunni ríkari og árinu eldri, og þá hafa bæst í hópinn þrír reynsluboltar með töluverðan spilatíma í efstu deild undir beltinu, sem og með A og yngri landsliðum. Þetta eru þær Erna Rún Magnúsdóttir sem er komin heim frá Þórsurum á Akureyri, Ingibjörg Jakobsdóttir sem tekur fram skóna á ný eftir barnsburðarleyfi og áðurnefnd Hrund Skúladóttir sem lék með Njarðvík í fyrra en hefur þar fyrir utan leikið allan sinn feril með Grindavík.