Stelpurnar töpuðu heima gegn KR

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Það má leiða að því líkur að Grindavíkurstúlkur hafi endanlega misst af lestinni upp í Úrvalsdeild að nýju um helgina, en þá tapaði liðið heima gegn toppliði KR. Leikurinn var nokkuð jafn framan af en gestirnir unnu lokafjórðunginn með 10 stigum og leikinn sömuleiðis, lokatölur 78-88. Grindavík er því eftir þennan leik í 4. sæti deildarinnar með 7 sigra og 4 töp en KR situr taplaust á toppnum.

Karfan.is var að sjálfsögðu með fréttaritara á staðnum:

KR langefstar í deildinni inn í jólafríið

Heimastúlkur úr Grindavík tóku á móti Kana- og taplausu KR-liði í lokaleiknum fyrir jólafríið og er óhætt að segja að leikmenn hafi verið í jólagjafastuði því boðið var upp á mjög skemmtilegan leik sem oft á tíðum var mjög spennandi! Segja má að reynsla KR hafi fleytt þeim yfir hjallan því þær áttu lokamínúturnar skuldlausar og tryggðu sér sigur sem var ekki eins öruggur og lokatölur bera með sér, 78-88.

Þáttaskil
Þáttaskilin komu í lokin og má segja að Perla Jóhannsdóttir hafi verið hetjan því hún setti 2 stóra þrista þegar KR náði yfirhöndinni en þegar skammt lifði leiks leiddi Grindavík með 5 stigum. Við þessa Perlu-þrista var eins og allur vindur færi úr heimastúlkum og KR gekk á lagið.

Tölfræðin lýgur ekki
Tölfræðiblaðið bendir mér á muninn á skotum liðanna en KR tók einungis 12 3-stiga skot og hitti 50% á meðan Grindavík tók 26 slík skot! Hitti jafn oft eða 6 sinnum og töluglöggir eru fljótir að sjá að nýtingin var þá muuuun slakari….. KR byggir greinilega sinn leik á „inside game” en þær skutu 30 vítum á móti 16 vítum heimakvenna. Allt annað varðandi tölfræðina svipað á milli liðanna.

Hetjan
Ég vel Perlu Jóhannsdóttur sem hetju leiksins því hún sneri taflinu við í lokin með fyrrnefndum stórum þristum í lokin. Flottur leikstjórnandi þarna á ferð og verður fróðlegt að fylgjast með henni í framtíðinni.

Kjarninn
Eins og fram kom í viðtali við Benedikt Guðmundsson þjálfara, þá mun KR tefla fram nýjum Kana eftir áramót en Desiree Ramos baðst lausnar en skv. Gróu blessaðri þá var hún ekki sátt við sinn spilatíma. Stórveldið sættir sig ekki við neitt nema efstu deild og því er von á nýrri bombu en Benni hefur nú ófáar fjörurnar sopið í þeim efnum…..

Tölfræði leiks

Umfjöllun & viðtöl / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson