Grindavíkurstelpur tóku KR í karphúsið í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í dag. Grindavík vann með 20 stiga mun, 80 stigum gegn 60.
Grindavík byrjaði leikinn með miklum látum og hafði 21 stigs forystu eftir fyrsta leikhluta. Staðan í hálfleik var 46-23, Grindavík í vil.
Guðmundur Bragason stýrði liðinu af bekknum. Nýráðinn þjálfari liðsins Crystal Smith skoraði 24 stig en maður leiksins var Helga Rut Hallgrímsdóttir. Hún skoraði 20 stig og hirti 14 fráköst. Petrúnella Skúladóttir stóð henni ekki langt að baki en hún skoraði einnig 20 stig og hirti 13 fráköst. Yngibjörg Yrsa Ellertsdóttir skoraði 8 stig, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 4 og Berglind Anna Magnúsdóttir og Harpa Rakel Hallgrímsdóttir 2 stig hvor. Grindavík hefur 4 stig í deildinni.