Grindavíkurkonum tókst ekki að bæta öðrum sigri í sarpinn á nýju ári þegar þær tóku á móti verðandi deildarmeisturum Snæfells á laugardaginn. Okkur konur byrjuðu leikinn betur en hægt og rólega unnu gestirnir á og unnu að lokum öruggan sigur, 65-77.
Líkt og svo oft áður var gott samstarf milli Grindavik.is og Karfan.is og var fréttaritari okkar á staðnum og gerði leiknum góð skil:
Fyrir leik
Snæfell var í lykilstöðu til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn með því að leggja botnlið Grindavíkur í dag. Grindavíkurliðið var í vonlausri stöðu í deildinni en þær voru aðeins búnar að vinna einn leik á árinu fyrir þennan leik og sátu sem fastast á botni deildarinnar með 8 stig.
Kjarninn
Grindavíkurkonur komu ákveðnar til leiks og leiddu fljótlega með 11 stigum, 4-15. Þær ætluðu greinilega að sýna að þær væru betri en stigataflan gefur til kynna. Íslandsmeistarar Snæfells eru þó sennilega akkúrat jafn góðar og taflan segir til um og unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn. Þær leiddu í hálfleik 37-42 og létu forystuna ekki aftur af hendi.
Þáttaskil
Grindavík minnkaði muninn í 3 stig með góðu áhlaupi í upphafi 4. leikhluta. Snæfell svaraði með þristi en náðu þó ekki að slökkva í baráttuglöðum Grindavíkurkonum sem svöruðu strax með öðrum þristi en þar með fjaraði undan þeirra baráttuþreki og Snæfell keyrði muninn upp aftur og sigurinn varð nokkuð öruggur í lokin.
Tölfræðin lýgur ekki
Boltinn var á tímabili eins og heit kartafla í höndum Grindvíkinga sem köstuðu honum frá sér trekk í trekk. Þær enduðu með 24 tapaða bolta gegn aðeins 9 hjá gestunum. Angela Rodriguez átti sérstaklega slæman sendingardag og tapaði 9 af þessum 24 boltum. Alltof oft reyndu Grindavíkurkonur gjörsamlega vonlausar sendingar og reyndu að þræða boltann í gegnum þröngar og erfiðar stöður.
Hvað ef?
Angela Rodriguez er án vafa afar hæfileikaríkur leikmaður. Hún setti 5 þrista í leiknum í 9 tilraunum og endaði með 17 stig, 6 stoðsendingar og 3 fráköst. En hún tapaði líka 9 boltum og er augljóslega ennþá að finna sinn takt og sitt hlutverk í þessu Grindavíkurliði. Það er mjög áhugavert að velta því fyrir sér hvernig Grindavíkurliðinu hefði gengið eftir áramót ef Angela hefði ekki þurft að bíða í 2 mánuði eftir atvinnuleyfinu sínu. Nú og hvað ef það hefði ekki þurft að skipta um þjálfara í þriðja sinn? Eða ef liðið hefði ekki verið leikstjórnendalaust á tímabili vegna meiðsla? Það hefur sannarlega fátt gengið upp hjá Grindavík í vetur en liðið sýndi í þessum leik að það býr mikið í því.
Snæfell aftur á móti sýndi svart á hvítu af hverju þær hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn 3 ár í röð og þær verða að teljast nokkuð líklegar til að landa þeim fjórða í ár.
Umfjöllun, myndir og viðtal / Siggeir F. Ævarsson