Stelpurnar sitja sem fastast á toppnum

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavíkurstelpurnar tóku á móti Stjörnunni á laugardaginn í Röstinni í B-deild körfuboltans. Um toppslag var að ræða. Eina tap stelpnanna kom einmitt á móti Stjörnustúlkum í fyrsta leik vetrarins. Strax í byrjun var ljóst að stelpurnar okkar ætluðu að selja sig dýrt. 

Stjarnan byrjaði leikinn þó betur þar sem að sóknarleikur okkar gekk ekki sem skildi. Ákveðinn og góð vörn með þær Yrsu, Jeanne og Jóhönnu Rún fremstar í flokki gaf auðveldar körfur og komust stelpurnar á bragðið. Staðan eftir fyrsta hluta var 21-19 og lykilmenn Stjörnurnar komnar í villuvandræði. Í öðrum leikhluta var sama upp á teningnum. Góð vörn var lykillinn að góðu forskoti sem stelpurnar létu ekki af hendi. Katrín Ösp og Helga Arnberg komu sterkar inn af bekknum í öðrum leikhluta og skiluðu sínu. Staðan í hálfleik var 42-34.

Seinni hálfleikur var vel leikinn af stelpunum. Sóknarleikurunn var mun betri en í þeim fyrri og sköpuðust opin skot og lay-up sem nýttust ekki nægjanlega vel, en kom ekki að sök þar sem að varnarleikurinn var mjög góður og gerðu Stjörnustúlkur aðeins 19 stig í seinni hálfleik.

Lokatölur urðu 76-53 Grindavík í vil. Baráttan var til fyrirmyndar og tóku þær til að mynda 23 sóknarfráköst. Vörnin var til fyrirmyndar eins og áður sagði og lagði grunninn af góðum sigri.

Jóhanna Rún lék afar vel á laugardaginn og gerði 11 stig tók 14 fráköst og varði 6 skot. Jeanne Lois átti einnig góðan dag og gerði 14 stig. Bergling Anna stóð fyrir sínu að vanda og gerði 11 stig og tók 13 fráköst (6 í sókn). En besti maður vallarins var Yrsa. Hún gerði sér lítið fyrir og var með þrefalda tvennu, 18 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Yrsa hefur spilað mjög vel í vetur og á hún bara eftir að vera betri. Þess má geta að í liðið vantaði Ingibjörgu Sigurðardóttur sem var valin á æfingar hjá U-16 kvenna í knattspyrnu og æfði hún þar um helgina.

Með sama áframhaldi verða stelpurnar illviðráðanlegar eftir áramót og ljóst að þær gera tilkall til þess að komast í deild þeirra bestu á ný.