Grindavíkurkonur unnu góðan bikarsigur í gær þegar þær lögðu lið Njarðvíkur í Maltbikaranum, 85-70. Njarðvíkingar urðu fyrir áfalli snemma í leiknum þegar Carmen Tyson varð fyrir meiðslum og gat ekki klárað leikinn. Carmen hefur farið hamförum með liðinu í vetur og hefur verið að skora tæp 39 stig í leik og taka 16 fráköst. Gestirnir lögðu þó ekki árar í bát en Grindavík var með góð tök á leiknum allan tímann og kláruðu hann örugglega.
Karfan.is fjallaði um leikinn:
Grindavíkurstúlkur tóku á móti Njarðvíkurstúlkum með nýjan þjálfara innan borðs, Bjarna Magnússon. Grindvíkingar voru með leikinn í höndunum allan tímann.
Þáttaskil
Grindavíkurstelpur náðu 17 – 4 forskoti á Njarðvíkinga. Njarðvíkingar náðu aðeins að höggva á forskot Grindvíkinga þegar Carmen setti niður þrjár þriggja stiga körfur í seinni hluta annars leikhluta. Grindvíkingar áttu þó aldrei í hættu á að missa forskot sitt í hendur Njarðvíkinga og kláruðu þær leikinn 85 – 70.
Hetjan
Grindavíkurstúlkur sýndu flotta liðsheild og unnu leikinn sem ein heild. María Ben Erlingsdóttir var stigahæst með 21 stig og þar á eftir kom Ashley Grimes með 19 stig ásamt því að skila 12 fráköstum. Petrúnella Skúladóttir tók þá 10 fráköst og var með 9 stig.
Þrátt fyrir að hafa einungis spilað í fyrri hálfleik var Carmen stigahæst fyrir Njarðvíkinga með 18 stig.
Kjarninn
Grindavíkurstúlkur eru komnar áfram í 8 liða úrslit eftir 15 stiga sigur á Njarðvíkingum. Andinn virtist allt annar í Grindavíkurstúlkum og vonandi heldur þessi liðsheild áfram og skilar þeim flottum árangri í vetur eftir lélegt upphaf.
Myndasafn á Facebook-síðu karfan.is
Viðtal við Maríu Ben Erlingsdóttur eftir leik: