Það var boðið uppá heldur betur fjörugan bikarleik í Röstinni á laugardaginn þegar Haukar komu í heimsókn í 8-liða úrslitum bikarkeppni kvenna. Framlengingu þurfti til að skera úr um hvaða lið færi áfram og þar tóku okkar stúlkur öll völd á vellinum og kláruðu leikinn örugglega.
Bryndís Gunnlaugsdóttir var á leiknum og skrifaði þennan pistil fyrir karfan.is:
Það var boðið upp á svakalegan bikarleik í Röstinni í dag er Grindavík og Haukar mættust í 8-liða úrslitum. Haukar voru fyrir leik eflaust taldar sigurstranglegri enda ríkjandi bikarmeistarar og ofar í deildinni en leikur Grindavíkurliðsins hefur verið vaxandi og með tilkomu King vonast Grindvíkingar eftir enn sterkara liði.
Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur, Grindavík komst í 7-2 en Haukar voru snöggar að jafna og komast í 11-12 en í þá gáfu Grindavíkurstelpur aftur í og eftir fyrsta leikhluta var staðan 30-24 fyrir Grindavík. Grindavíkurstelpur voru sjóðandi heitar í 1. leikhluta og hittu úr 5 af 6 þriggja stigaskotum sínum. Annar leikhluti var algjör eign Hauka er unnu 2. leikhluta með 12 stigum og leiddu því í hálfleik 49-43. Lele Hardy fór á kostum í þessum leikhluta og skoraði 18 stig og dró Haukaliðið áfram.
Í þriðja leikhluta færðist meiri harka í leikinn og vörnin varð stífari. Haukastelpur voru einstaklega grimmar og ákveðnar í vörninni og Grindavík átti í stökustu vandræðum með að finna körfuna. Það vakti furðu hversu lítið þær komu boltanum inn í teig á King og Maríu og sættu sig oft á tíðum við erfið skot utan af velli. Það verður þó ekki tekið af Haukastelpunum að vörnin var góð og eflaust erfitt að gefa inn í teig þegar Hardy er á svæðinu og getur stolið ótrúlegustu boltum. Haukar unnu leikhlutan 10-16 og voru því komnar 12 stigum yfir þegar flautað var til loka þriðja leikhluta og ljóst að eitthvað mikið þyrfti að gerast í leik Grindavíkurstúlkna til að þær kæmust aftur inn í leikinn.
En fjórði leikhluti gaf Grindavíkurstelpum strax þá von sem þær þurftu á að halda. Hardy fékk sína fjórðu villu strax í upphafi leikhlutans og var tekin út af í stöðunni 55-69. Hardy var útaf í 3 mínútur en á þeim tíma náði Grindavík að minnka muninn úr 14 stigum í 7 stig. Grindavíkurstelpur voru komnar á bragðið og mikil barátta komin í þeirra leik og ljóst að lokamínúturnar yrðu æsispennandi. Þar sem Hardy var komin með 4 villur var ljóst að Grindavíkurstelpur myndu sækja á hana og það tókst þegar um 3 mínútur voru eftir á leiknum er Hardy braut á Maríu Ben undir körfunni. Í framhaldinu kom mikið stress í leik Hauka og Grindavíkurstelpur pressuðu stíft og vissu að þeirra tækifæri til að stela sigrinum væri komin upp. Ívar þjálfari Hauka hafði stuttu áður tekið sitt annað leikhlé og þrjár mínútur eftir af leiknum og hann aðeins með eitt leikhlé eftir. Hann gat því ekki tekið leikhlé til að róa sínar stelpur. Í stöðunni 74-78 og um 1 og hálf mínúta eftir setti King niður 2 víti. Haukar ná ekki að skora en King fær aftur 2 víti í næstu sókn Grindavíkur og setti bæði skotin niður af miklu öryggi. María Lind fer á vítalínuna í næstu sókn Hauka og er einnig svellköld á vítalínunni og setti bæði vítin ofan í og kemur Haukum 2 stigum yfir og um 50 sekúndur eftir. Næst er það Grindavík sem fer á vítalínuna og í þetta sinn var það Ingibjörg Jakobsdóttir sem einnig setur niður bæði vítin sín og jafnar 80-80. Dagbjört Samúelsdóttir skorar í næstu sókn Hauka og kemur þeim yfir 82-80 og Grindavíkur heldur í seinustu sókn leiksins. King hittir ekki úr 2ja stiga skoti en Pálína nær sóknarfrákastinu en Auður brýtur á henni í skotinu og fer út af með 5 villur. Pálína líkt og fyrri vítaskyttur var örugg á línunni og setti bæðin skotin ofan í og jafnar leikinn og framlenging staðreynd.
Ljóst var að Haukar myndu eiga erfitt í framlengingu þar sem Hardy og Auður voru farnar út af með 5 villur. Grindavík byrjar betur og kemst í 87-83 en Haukar ná að minnka muninn í 87-86 og síðan 89-88 en þá setti Petrúnella niður risa stóran þrist fyrir Grindavík og kom þeim í 92-88 og aðeins um 40 sekúndur eftir. Eftir það fór leikurinn fram á vítalínunni þar sem Grindavíkurstelpur settu niður 5 af 6 vítum og lokatölur voru 97-90.
Þessi leikur var æsispennandi og fá stuðningsmenn beggja liða hrós fyrir mætingu og hvatninguna úr stúkunni og væru bæði liðin að spila mjög vel. Eflaust eru margir Haukamenn ósáttir við fimmtu villuna hennar Hardy sem leit út fyrir að vera ansi ódýr en að mati undirritaðar var það bara tímaspursmál hvenær Hardy myndi fá fimmtu villuna enda leikurinn hraður og spilað fast. Grindavíkurstelpur mega þó þakka fyrir að þær unnu þennan leik. Þær eru með líklega eitt besta miðherjapar deildarinnar, King og Maríu, og oft á tíðum sættu Grindavíkurstelpur sig við erfið þriggja stiga skot í staðinn fyrir að koma boltanum inn í teig. En sigurinn var þeirra verðskuldað enda héldu þær ró sinni undir lok leiksins og Grindavík komið í 4. liða úrslit. Því miður átti Hardy í dýrkeyptum samskiptum við dómara leiksins eftir leik og fékk þar brottrektrarvillu.
Bestar í lið Grindavíkur voru María Ben (25 stig og 6 fráköst), Kristina King (22 stig og 5 fráköst) og Pálína Gunnlaugsdóttir (21 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar) Hjá Haukum var Lele Hardy yfirburðarleikmaður með 37 stig, 20 fráköst og 6 stoðsendingar. Næstar henni voru Sylvía Rún Hálfdánardóttir (14 stig og 7 fráköst), María Lind Sigurðardóttir (13 stig) og Auður Íris Ólafsdóttir (10 stig og 8 fráköst).