Kvennalið Grindavíkur í Dominosdeildinni í körfubolta hefur farið vel af stað í fyrstu leikjum vetrarins sem báðir hafa unnist. Á laugardaginn voru það Blikar sem lágu í valnum en lokatölur voru 57-80 Grindvíkingum í vil, eftir fremur jafnan leik framan af.
Rachel Tecca var aftur stigahæst Grindvíkinga með 28 stig en hún reif niður 15 fráköst í kaupbæti. Í þessum fyrstu tveimur leikjum hefur hún skilað 30 stigum að meðaltali og tekið 11,5 fráköst. Nánari tölfræði má sjá hér.
Næsti leikur hjá stelpunum er heimaleikur gegn Haukum næsta miðvikudagskvöld. Þar hefur Lele Hardy verið að skila fáránlegum tölum í fyrstu leikjum en kunnugir segja að ef að andstæðingum tekst að stöðva hana sé björninn að mestu unninn. Við hvetjum Grindvíkinga að sjálfsögðu til að fjölmenna á leikinn og styðja við bakið á stelpunum okkar.
Tímabilið fór ekki jafn vel af stað hjá strákunum en þeir töpuðu á föstudaginn á móti Haukum, 97-77. Vonandi getum við skrifað það tap á haustryð og eitthvað sem slípast af mönnum eftir því sem hópurinn nær betur saman og menn aðlaga sig að nýjum hlutverkum eftir brotthvarf sterkra lykilmanna.