Stelpunum spáð 7. sæti í Pepsi-deildinni í sumar

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Sparkspekingar Fótbolta.net spá kvennaliði Grindavíkur ágætis árangri í Pepsi-deildinni í sumar, eða 7. sæti af 10. liðum. Liðið hefur bætt við sig öflugum erlendum leikmönnum í vetur, þar á meðal tveimur brasilískum landsliðskonum. Það virðast því vera meiri væntingar til Grindavíkur í sumar en oft eru gerðar til nýliða í deildinni.

Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi-deild kvenna: 7. sæti

7. Grindavík
Lokastaða í fyrra: 2. sæti í 1. deild

Grindavík endurheimti sæti sitt í Pepsi-deild kvenna í fyrra. Grindvíkingar léku síðast í Pepsi-deildinni árið 2011 en eftir fimm ár í 1. deild þá er liðið á ný á meðal þeirra bestu. Öflugur liðsstyrkur hefur borist erlendis frá og í Grindavík kemur ekki annað til greina en að halda sæti sín í deildinni.

Þjálfarinn: Róbert Haraldsson stýrir liði Grindavíkur í sumar. Guðmundur Valur Sigurðsson kom liðinu upp í fyrra en Róbert tók við starfinu í vetur. Róbert flutti í vetur heim eftir að hafa verið búsettur í Englandi. Hann hefur meðal annars þjálfað karlalið KS/Leifturs og Tindastóls á ferli sínum.

Styrkleikar: Grindvíkingar hafa öfluga erlenda leikmenn innan sinna raða og í vetur hefur liðinu borist mjög öflugur liðsstyrkur. Rilany Aguiar Da Silva og Thaisa Moreno eru komnar Brasilíu en þær fóru með Tyresö í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2014 og eiga báðar leiki að baki með brasilíska landsliðinu. Fleiri leikmenn hafa bæst við hópinn í vetur en portúgalska landsliðskonan Carolina Mendes er líka komin auk þess sem Guðrún Bentína Frímannsdóttir snýr aftur eftir barneignarleyfi.

Veikleikar: Grindavík hefur einungis unnið einn af fimm leikjum í B-deild Lengjubikarsins og betur má ef duga skal í sumar. Grindavík hefur gert mikið af jafnteflum í vetur og gengið illa að vinna jafna leiki. Fáir leikmenn í hópnum hafa mikla reynslu af Pepsi-deildinni en munurinn á að spila þar og í fyrstu deild er mikill.

Lykilmenn: Lauren Brennan, Linda Eshun og Thaisa Moreno.

Gaman að fylgjast með: Grindavík hefur nokkrar ungar og efnilegar stelpur í hópnum og þar á meðal er Dröfn Einarsdóttir. Dröfn er fædd árið 1999 en þrátt fyrir það hefur hún leikið yfir 50 leiki með Grindavík. Dröfn er mjög fjölhæfur leikmaður og getur leikið hvar sem er á vellinum en hún verður líklega í bakverðinum í sumar.

Komnar:
Berglind Ósk Kristjánsdóttir í Völsung
Carolina Mendes frá Svíþjóð
Guðrún Bentína Frímannsdóttir snýr aftur eftir barneignarleyfi
Malin Reuterwall frá Svíþjóð
María Sól Jakobsdóttir frá Stjörnunni
Rilany Aguiar Da Silva frá Brasilíu
Thaisa Moreno frá Brasilíu

Farnar:
Marjani Hing-Glover í Hauka
Rakel Lind Ragnarsdóttir í Aftureldingu
Sashana Carolyn Campbell til Jamaíka

Fyrstu leikir Grindavíkur
27. apríl Fylkir – Grindavík
3. maí Grindavík – Haukar
10. maí KR – Grindavík