Stefán Þór lánaður til Grindavíkur

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Stórefnilegur framherji, Stefán Þór Pálsson hefur verið lánaður frá Breiðabliki til Grindavíkur út komandi leiktíð en þetta staðfesti Milan Stefán Jankovic þjálfari Grindavíkur við Fótbolta.net í gær. Stefán Þór sem er 18 ára gamall kom til Breiðabliks frá ÍR fyrir síðustu leiktíð og spilaði 3 leiki í Pepsi-deildinni í fyrrasumar.

Hann hafði vakið athygli sumarið áður þegar hann hóf meistaraflokksferil sinn með ÍR í 1. deildinni. Þá skoraði hann þrjú mörk í 17 leikjum í deild og bikar. Hann á að baki 23 leiki með U19 og U17 ára landsliðum Íslands og hefur skorað í þeim þrjú mörk. Breiðablik endaði í 2. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra en Grindavík endaði í neðsta sæti og féll því í 1. deildina.

Grindvíkingar höfðu áður fengið til liðs við sig Guðfinn Þóri Ómarsson úr Þrótti, Jóhann Helgason sem sneri aftur úr láni frá KA og Jordan Edridge.

Þeir hafa misst Ólaf Örn Bjarnason í Fram, Ray Anthony Jónsson í Keflavík, Iain Williamson í Val, Loic Ondo í BÍ/Bolungarvík og Boga Rafn Einarsson í HK.