Staða GG traust þrátt fyrir miklar framkvæmdir og aukna skuldsetningu

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Aðalfundur Golfklúbbs Grindavíkur var haldinn í gær. Ágætis rekstrarár er að baki hjá Golfklúbbi Grindavíkur og nemur tap ársins um 2 milljónum króna. Rekstrartekjur ársins voru um 39,2 milljónir sem er hækkun um 10,5 milljónir frá árinu 2011 en rekstrargjöld um 40,7 milljónir. Heildarskuldir golfklúbbsins eru samtals um 18 milljónir króna en eftir er að skuldfæra styrki á móti efnisúttektum. Verðmætaaukning er 28,5 milljónir kr.

Um 209 meðlimir eru nú í GG og stendur fjöldinn í stað frá í fyrra. Enn standa yfir stækkunarframkvæmdir á vellinum og má gera ráð fyrir um 4-5 milljón króna kostnaði til að ljúka þeim. Einnig hefur verið lögð mikil vinna við stækkun og endurbætur á framtíðarskála GG sem nú er að mestum hluta lokið.  

Ákveðið var að hafa félagsgjöld óbreytt frá síðasta aðalfundi að undanskildu að nýliðagjald lækki í 32.000 kr. Það er gert til að tryggja enn betur rekstrargrundvöll golfklúbbsins og samræma gjaldflokkana Þess ber að geta að Golfklúbbur Grindavíkur er stoltur af því að bjóða sérstök námsmannagjöld, einnig fyrir örorkulífeyrisþega aldraða, nýliðagjöld og hjónagjöld sem eru með þeim lægstu á landinu. Einnig ber að hafa í huga að félagsgjöldin verða áfram með þeim lægstu miðað við 18 holu golfvelli landsins. 

Páll Erlingsson var endurkjörinn formaður klúbbsins en hann hefur setið sem formaður undanfarin fimm ár. Stjórn GG árið 2013 er því eftirfarandi: Páll Erlingsson (formaður), Halldór Einir Smárason, Sverrir Auðunsson (nýr í stjórn), Jón Guðmundsson, Gunnar Oddgeir Sigurðsson, Jón Júlíus Karlsson, og Sigmar Eðvarðsson. Í varastjórn eru Halldór Jóel Ingvason og Jóhann S. Ólafsson.

Sigvaldi Þorsteinsson og Jóhann Freyr Einarsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Friðrik Ámundason sagði sig úr stjórn í águst 2012. Golfklúbbur Grindavíkur kann þeim miklar þakkir fyrir mjög gott starf.