Sokkarnir færa mér gæfu

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Úrslitarimma Grindavíkur og Þórs frá Þorlákshöfn í Iceland Express-deild karla hefst í kvöld í Grindavík. Grindavík lagði Stjörnuna í undanúrslitum á meðan Þór ýtti KR úr vegi. Miðherji Grindavíkur, Sigurður Þorsteinsson, hefur vakið athygli fyrir sokkana sem hann skartar í úrslitakeppninni. Er um að ræða eldgamla fótboltasokka merkta Grindavík.

 

„Óli Óla kom með þá hugmynd að við yrðum með þema í úrslitakeppninni og allir yrðu í uppháum sokkum. Ég átti enga slíka og mér var útvegað þessum frábæru, gömlu sokkum,” sagði Sigurður hæstánægður með sokkana.

„Ég mun klára úrslitakeppnina í þessum sokkum þó svo flestir séu hættir að taka þátt í þemanu. Svona sokkar færa manni gæfu. Þetta er fyrir allan peninginn. Það eiga allir að vera í svona sokkum.”

Grindavík tapaði báðum leikjum sínum gegn Þór í vetur og Sigurður spáir jöfnu einvígi.

Fréttablaðið