Grindavík tók á móti botnliði Hattar í fremur tíðindalitlum leik í Mustad-höllinni í gær. Hattarmenn hafa aðeins unnið einn leik af 16 í vetur, og gerðu sig líklegan í byrjun til að bæta öðrum í sarpinn. Grindvíkingar hrukku svo í gírinn í öðrum leikhluta sem þeir unnu með rúmum 20 stigum, 34-12, og eftir það varð ekki aftur snúið.
Grindvíkingar skiptu mínútunum bróðurlega á milli sín og fengu reynsluminni leikmenn dýrmætar mínútur í gær. Ingvi Þór Guðmundsson kom eins og vítamínsprauta af bekknum og endaði stigahæstur með 25 stig.