Skráning hafin á Unglingalandsmót UMFÍ

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Skráning á 18. Unglingalandsmót UMFÍ, sem fram fer á Akureyri um verslunarmannahelgina, hófst mánudaginn 6. júlí. Þetta verður í fyrsta skipti sem Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið þar. Mótið hefst fimmtudaginn 30.júlí og mótsslit eru um miðnætti á sunnudagskvöldi. Búist er við fjölmennu móti á Akureyri að þessu sinni enda eru fleiri keppnisgreinar en nokkru sinni áður. Á Akureyri er gríðarlega góð keppnisaðstaða til staðar fyrir allar keppnisgreinar þannig að ekkert mun skorta í þeim efnum.

Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Hægt er að skrá sig á UMFI.is. Ungmennafélag Grindavíkur greiðir helming keppnisgjaldsins fyrir þátttakendur frá UMFG. Það fer þannig fram að þú greiðir fullt gjald og getur svo fengið helming gjaldsins endurgreiddan gegn framvísun greiðslukvittunar á skrifstofu félagsins eða sent afrit af henni til umfg@umfg.is með upplýsingum hvert á að greiða.

Nánari upplýsingar veitir Bjarni Már Svavarsson formaður Landsmótsnefndar UMFG í síma 8917553.