Skoða Skota

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindvíkingar munu í kvöld fá skoska varnarmanninn Iain Williamson til sín á reynslu en hann verður til skoðunar næstu dagana að því er fram kemur á vefnum fotbolti.net.  Leikmaðurinn sem er 24 ára hefur spilað með Raith Rovers í Skotlandi undanfarin ár þrjú ár en þar áður var hann á mála hjá Dunfermline.

Grindvíkingar gátu einungis verið með fjóra menn á varamannabekknum gegn Fylki síðastliðinn mánudag. Þrátt fyrir að mikil meiðsli séu hjá liðinu og hópurinn sé þunnur þá ætla Grindvíkingar einungis að fá einn leikmann áður en félagaskiptaglugginn lokar.

,,Við erum bara að leita eftir einum manni. Ef allir eru heilir þá erum við með ágætis mannskap. Frá fyrstu umferð hafa verið að meðaltali fimm meiddir,” sagði Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur við Fótbolta.net í dag.

Loic Ondo, Mikael Eklund og Pape Mamadou Faye eru allir að koma til eftir að hafa verið að glíma við meiðsli.

Marko Valdimar Stefánsson og Tomi Ameobi verða frá í einhverjar vikur í viðbót og Jósef Kristinn Jósefsson er einnig frá keppni eftir að hafa farið í aðgerð.