Skiptir máli að gefa til baka

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Gunnar Már Gunnarsson og Ingibergur Þór Jónasson sinna báðir formennsku og framkvæmdastjórastöðu í stærstu deildum UMFG, knattspyrnudeild og körfuknattleiksdeild.

Sjálfboðaliðastarfið er oft vanmetið af þeim sem ekki stunda slíkt starf. Oft er um mikla vinnu að ræða og áreiti oft mikið í litlu samfélagi. Grindavík hefur í gegnum tíðina státað af mannauði sem vill samfélaginu sínu vel og vinnur launalaust ýmist í björgunarsveitum, fyrir Kvenfélagið, Lions eða íþróttahreyfinguna. 

Gunnar Már og Ingibergur hittu blaðamann Járngerðar einn eftirmiðdag á Bryggjunni kaffihúsi. Í viðtalinu samþykktu þeir að taka þátt í smá spurningaeinvígi og fengu blað og penna og nokkar spurningar. Úrslit verða birt á vef bæjarins um leið og viðtalið fer á netið. Óhætt er að segja að keppnin hafi verið hörð. 

Báðir gengu Gunnar Már og Ingibergur í Grunnskóla Grindavíkur. Þeir stunduðu íþróttir af kappi sem börn og unglingar og  slitu hér barnskónum. Þeir fóru í skólasund í gömlu sundlauginni og í leikfimi í gamla salnum sem búið er að rífa við skólann. Þeir fæddust á áttunda áratug síðustu aldar og brenna báðir fyrir það að starfa í þágu íþróttahreyfingarinnar. Það skiptir máli að gefa til baka segja þeir. 

Gunnar Már og Ingibergur eiga fleira sameiginlegt en að vinna af hugsjón fyrir sitt félag. Báðir styðja þeir Liverpool í enska boltanum.  Ingibergur styður Philadelphia-liðið 76ers en Gunnar Már  heldur með liðinu hans Jóns Axels, Davidson Wildcats. Það  er reyndar  háskólaboltinn en spurningin snérist um uppáhaldslið í NBA. Þyrfti Gunnar Már að nefna lið í NBA þá væri það Chicago Bulls.

En hvernig stóð á því að þið urðuð formenn?

Ingibergur: Ég lifi fyrir körfuboltann og er mikill stuðningsmaður og ég á börn sem stunda körfubolta. Ég var í raun plataður í stjórn þegar ég bauð fram aðstoð mína við uppstillingu í Gjánni fyrir lokahófið fyrir 3 árum síðan. Áður en ég viss af var ég kominn í formanninn. 

Gunnar Már: Ég hef alltaf verið mikill stuðningsmaður fótboltans og þegar ég hætti að spila sjálfur þá var næsta hlutverk að fara upp í stúku og styðja liðið á vellinum. Svo var greinilega komin tími á næsta hlutverk þar sem sitjandi formaður gat ekki kost á sér þá þurfti einhvern til að taka það að sér. Eigum við ekki bara að segja að þetta hljóti að vera í genunum á mér að taka að mér sjálfboðastarf.” 

Botnuðu þekkta jólavísu
Formennirnir voru beðnir um að botna þekkta jólavísu. Þeir fengu fyrstu tvær línurnar og síðan botnuðu þeir með eigin skáldskap. Hér fyrir neðan má sjá afrakstur þeirra. 

Ingibergur: 

Gefðu mér gott í skóinn, 

góði jólasveinn í nótt. 

Sleðinn skautar um snjóinn,

dýrin svo sofa rótt.

Gunnar Már: 

Gefðu mér gott í skóinn,

góði jólasveinn í nótt.

Stökktu nú ekki í sjóinn, 

þá færðu hitasótt. 

Við lögðum nokkrar spurningar fyrir Gunnar Már og Ingiberg en svörin við þeim má vinna hér fyrir neðan: 

1.    Botnið málsháttinn morgunstund gefur 
2.    Hvað kallast kvenkyns selur?
3.    Botnið jólalagið Gefðu mér gott í skóinn, góði jólasveinn í nótt
4.    Hvaða fyrrverandi þingmaður og ráðherra er faðir Herra Hnetusmjörs? 
5.    Hvaða fiskur er framan á hundraðkallinum?
6.    Nefnið a.m.k. þrjár persónur sem Sóli Hólm tekur í uppistandi sínu Varist eftirhermur

Ingibergur: 

1. …gull í mund

2. Urta

3. Bergrisinn, drekinn, örninn og nautið

4. Árni….man ekki eftirnafnið hans. (Árni Magnússon)

5. Grásleppa (yfirheitið er hrognkelsi en það skiptist í rauðmaga (kk) og grásleppu (kvk))

6. Pálmi Gunnars, Páll Óskar, Gísli Einars

Stig: 5 1/2
 

Gunnar Már:

1. …gull í mund. 

2. Urta

3. Bergrisi, örn, dreki og naut

4. pass

5. Hrognkelsi

6. Gísli Einarsson, Páll Óskar og Magnús Hlynur

Stig: 5

Ingibergur er því sigurvegari í þessari stuttu spurningaáskorun

Viðtalið birtist fyrst í jólablaði Járngerðar sem lesa má í heild sinni hér. 

Gunnar Már og Sigurbjörn Hreiðarson, þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu

Ingibergur og Daníel Guðni þjálfari meistaraflokks karla í körfuknattleik