Skellur í fyrsta leik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

„Vörnin hjá okkur var arfaslök, við gátum ekki haldið neinu fyrir framan okkur og KR-ingarnir komust þar sem þeir vildu. Það voru helstu vandamálin í kvöld”, sagði Sverrir Sverrisson, þjálfari Grindvíkinga við Vísi eftir 20 stiga tap gegn KR í úrvalsdeild karla í körfubolta 74-94.

„Við tókum nokkra góða kafla sem dugðu ekki en það er ekki nóg að það séu tveir til þrír menn sem eru að spila vörn og berjast. Það þarf að fá allt liðið upp á tærnar. Þetta var bara virkilega dapurt hjá okkur og leiðinlegt að byrja svona illa í fyrsta leik.”

Grindvíkingar áttu í erfiðleikum með að stöðva nýja bandaríkjamannin hjá KR, Shawn Atupem og var Sverrir spurður að því hvort hann hafi komið þeim í opna skjöldu. „Ég vissi bara að þetta væri góður leikmaður, ég var aðeins búinn að skoða hann. Hann kom kannski okkur ekki á óvart þar sem ég vissi lítið um hann, nema tölfræði hans frá fyrri tímabilum en hann var náttúrulega frábær hjá þeim og var okkur mjög erfiður. Það var samt ansi margt sem klikkaði hjá okkur varnarlega í kvöld og verðum við bara að byrja að vinna í því strax fyrir næsta leik. Við þurfum að gera miklu betur en þetta ef við ætlum að gera einhverja hluti í vetur.”

Grindavík-KR 74-94 (16-21, 18-19, 21-22, 19-32)

Grindavík: Þorleifur Ólafsson 16, Ólafur Ólafsson 15/5 fráköst, Kendall Leon Timmons 14/10 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/12 fráköst, Hilmir Kristjánsson 10, Jón Axel Guðmundsson 4, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Jóhann Árni Ólafsson 1, Ármann Vilbergsson 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0.

Mynd: Vf.is