Grindavík steinlá fyrir Keflavík 4-0 í grannaslag á Grindavíkurvelli. Eftir fína frammistöðu í fyrsta leiknum gegn FH voru Grindvíkingar langt frá sínu besta í gær og eru því með eitt stig eftir tvær umferðir. Næsti leikur er á útivelli gegn Fram.
Keflavíkingar brutu ísinn á 19. mínítu og á tæplega 20 mínútna kafla gerðu þeir út um leikinn með þremur vel útfærðum mörkum. Strax í upphafi seinni hálfleiks kom svo fjórða markið og þá var leikurinn í raun búinn. Grindavík breytti taktík sinni í seinni hálfleik og gerði tvær breytingar og við það lagðist leikur liðsins en það dugði skammt. Er þetta stærsta tap Grindavíkur fyrir Keflavík frá upphafi í efstu deild.
Guðjón: Menn eru bara að tipla um
„Við vorum bara mjög slakir. Keflvíkingarnir vildu þetta mun meira í öllu sem við kom leiknum. Þeir voru miklu grimmari og vorum við í rauninni bara skugginn af sjálfum okkur frá síðasta leik. Við vorum flatfóta og flatir í vörninni. Við vorum virkilega daprir í allt kvöld,” sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur við Vísi.
„Þetta virðist vera huglægt mikið frekar en líkamlegt. Menn voru tilbúnir að leggja mikið á sig gegn FH þar sem þeir hræddust leikinn. Svo komum við hingað á heimavöll og menn eru bara að tipla um.
Keflvíkingarnir voru mjög fastir fyrir og grimmir í leiknum og svörum við þeim aldrei. Það er mjög alvarlegt að menn séu ekki tilbúnir að mæta almennilega til leiks í svona leik. Ef þetta er það sem menn ætla að bjóða upp á á heimavelli þá er staðan hjá okkur slæm,” sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur í leikslok.