Grindvíkingar heimsóttu ÍR-inga í Hellinn í gær, og lengst af leit út fyrir fremur þægilegan sigur okkar manna. Fljótlega fór að draga verulega í sundur með liðunum og þegar 13 mínútur voru eftir af leiknum leit ekki út fyrir annað en Grindvíkingar væru komnir langleiðina með að sigla þægilegum sigri í höfn og munaði 23 stigum á liðunum, staðan 50-73.
Ólafur Ólafsson var að spila mjög vel fyrir Grindvíkinga og voru menn mættir á þrennuvaktina. Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum var hann kominn með tölfræðilínuna 17/8/8, en jafnframt kominn í villuvandræði eins og Rodney Alexander. ÍR-ingar neituðu að gefast upp og voru búnir að klóra töluvert í bakkann, búnir að minnka muninn í 12 stig. Í kjölfarið tóku þeir svo 8-0 áhlaup, Óli fékk sína 5. villu og Rodney einnig. Eftir það gekk ekkert upp hjá okkar mönnum og fór að lokum svo að þeir skoruðu aðeins 7 stig í leikhlutanum á móti 30 stigum ÍR-inga sem sannarlega stálu sigrinum í lokin, 85-90.
Það var hreint með ólíkindum að fylgjast með liðinu brotna svona niður. Ómar benti á það í viðtali eftir leika að liðið væri mjög brothætt og menn létu mótmælið brjóta sig of auðveldlega:
,,Við erum bara rosalega brothættir þessa stundina, um leið og við fáum kjaftshögg þá koðnum við niður. Þannig að um leið og þeir tóku smá run, það koma alltaf run í körfubolta, þeir hitta úr tveimur þriggja stiga og það kom svolítil stemming hjá þeim. Þá allt í einu urðum við bara hræddir við að fá boltan og vildum að einhver annar myndi klára fyrir okkur. Þá bara dó sóknarleikurinn hjá okkur”
Ólafur Ólafsson átti mjög góðan leik þangað til að hann fékk sína 5. villu, skoraði 17 stig, tók 9 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Oddur endaði stigahæstur með 20 stig og Ómar skoraði 16 og tók 12 fráköst.