Sigur í fyrsta leik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurstúlkur fóru vel af stað í Dominos deildinni kvenna í fyrsta leik haustsins sem fór fram á okkar heimavelli í gærkvöldi þar sem Hamar kom í heimsókn. Lokatölur voru 93-80, Grindvíkingum í vil, en okkar stúlkur voru með forystu frá fyrstu mínútu og létu hana aldrei af hendi.

Stigahæst Grindvíkinga var hinn nýji erlendi leikmaður, Rachel Tecca, en hún skoraði 32 stig og tók einnig 8 fráköst. Rachel skoraði öll sín stig á aðeins 28 mínútum en allir 12 leikmenn á skýrslu hjá Grindavík komu við sögu í leiknum í gær. María Ben Erlingsdóttir var svo stigahæst íslenskra leikmanna liðsins en hún skoraði 22 stig og tók einnig 8 fráköst.

Næsti leikur hjá stelpunum er útileikur á móti Blikum næstkomandi laugardag, en strákarnir hefja leik á Íslandsmótinu annað kvöld á móti Haukum á útivelli.