Grindvíkingar lögðu land undir fót og héldu til Egilsstaða í gær til að leika gegn nýliðum Hattar. Hattarmenn hafa farið frekar illa af stað í deildinni en unnu sinn fyrsta leik í síðustu umferð gegn Njarðvíkingum. Grindvíkingar eru að stilla saman strengi með nýjum erlendum leikmanni og þá eru nokkrir leikmenn meiddir, og því mátti búast við hörkuleik sem varð raunin. Raunar leit allt út fyrir að heimamenn myndu fara með sigur af hólmi þangað til í lokin þegar Grindvíkingar girtu í brók og kláruðu dæmið.
Karfan.is fjallaði um leikinn:
„Grindvíkingar komu í heimsókn til Egilsstaða þar sem boðið var upp á mikinn spennuleik. Hattarmenn leiddu mestan part leiksins en Grindvíkingar ávalt skammt undan. Tobin fór fyrir sínum mönnum og virtist sem heimamenn ætluðu að sigla þessu heim en þegar um fimm mínútur voru eftir af síðasta leikhluta tóku gestirnir 10-0 áhlaup með Þorleif Ólafsson í broddi fylkingar og komust einu stigi yfir og þrjár mínútur eftir af leiknum.
Vegna spennu og koffín neyslu var undirritaður í hálfgerðu óminnisástandi á meðan á þessu gekk en skemmst er frá því að segja að liðin skiptust á að hafa eins stigs forystu þessar síðustu þrjár mínútur og þegar um átta sekúndur voru eftir skorar Tobin og kemur Hetti einu í eins stigs forystu. Grindvíkingar taka leikhlé og fá innkast. Hattarmenn gera slæm varnarmistök þegar boltinn berst til Jóhanns Árna niðri við endalínu og hann keyrir á körfuna í sniðskot og Eisteinn er tilneyddur að brjóta. Jói fer á línuna og setur seinna vítið og fjórar sekúndur eftir. Hreinn tekur langt innkast beint á Simma sem fær erfitt sniðskot með mann í sér sem klikkar og því er framlengt.
Þarna eru Hattarmenn farnir að tínast út af með fimm villur og eru án Mirko og Hreinn og Helgi fylgja fljótlega í kjölfarið. Gestirnir voru skynsamir og lönduðu tíu stiga sigri á móti frekar punkteruðum heimamönnum. Lokastaðan 71-81.
Tobin var sem fyrr sprækastur Hattarmanna með 34 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Hann átti einnig tilþrif kvöldsins þegar hann varði sniðskot Jóns Axels í spjaldið á ævintýralegan hátt í hraðupphlaupi. Eisteinn bætti við 12 stigum og 5 fráköstum og Mirko með 10 stig og 9 fráköst.
Hjá Gestunum fór Þorleifur fyrir sínum mönnum og var þeirra besti maður að mínu mati setti 21 stig, þar af mörg á mikilvægum tímapunkti þar sem hann hélt sínum mönnum inn í leiknum. Að auki tók hann 8 fráköst. Ómar var sterkur með 20 stig og 15 fráköst og nýr erlendur leikmaður Charles Wayne setti 18 stig og tók 10 fráköst.“
Umfjöllun: Frosti Sigurðarson
Myndasafn: Atli Berg Kárason
Höttur-Grindavík 71-81 (20-17, 19-19, 19-14, 11-19, 2-12)
Höttur: Tobin Carberry 34/11 fráköst/8 stoðsendingar/3 varin skot, Eysteinn Bjarni Ævarsson 12/5 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 10/9 fráköst, Sigmar Hákonarson 5/4 fráköst, Helgi Björn Einarsson 5/5 fráköst, Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 3, Hreinn Gunnar Birgisson 2, Ásmundur Hrafn Magnússon 0, Hallmar Hallsson 0, Gísli Þórarinn Hallsson 0.
Grindavík: Þorleifur Ólafsson 21/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 20/15 fráköst/4 varin skot, Charles Wayne Garcia Jr. 18/10 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 9/4 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 5, Hinrik Guðbjartsson 4, Daníel Guðni Guðmundsson 3, Jóhann Árni Ólafsson 1/4 fráköst, Nökkvi Már Nökkvason 0, Þorsteinn Finnbogason 0, Kristófer Breki Gylfason 0, Magnús Már Ellertsson 0.