Grindvíkingar heimsóttu Borgarnes í gær í Dominosdeild karla, en þar tók á móti þeim fyrrum liðsfélagi þeirra, Magnús Þór Gunnarsson, sem lét þristunum rigna í leiknum. Leikurinn var afar jafn og spennandi og þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit, þar sem Grindvíkingar voru mun sterkari og unnu að lokum 15 stiga sigur.
Eftirfarandi umfjöllun birtist á heimasíðu Skallagrímsmanna í gær:
„Boðið var upp á jafnan og spennandi leik í Fjósinu í Borgarnesi í gærkvöld þegar Skallagrímsmenn fengu Grindvíkinga í heimsókn. Góð mæting var á leikinn og létu áhorfendur vel í sér heyra líkt og áður. Okkar menn byrjuðu betur og komust strax 9:4 yfir. Gestirnir söxuðu hins vegar á forskotið með þá Rodney Alexander og leikstjórnandann öfluga Jón Axel Guðmundsson í broddi fylkingar og komust yfir 11:13 um miðjan leikhlutann. Liðin skiptust síðan á körfum fram undir lok leikhlutans. Skallagrímsmenn leiddu loks með einu stigi 25:24 eftir fyrsta leikhluta.
Sama þróun var við lýði í öðrum leikhluta. Skallagrímsmenn juku við forskot sitt og með stórum þristum frá Magnúsi Þór Gunnarssyni komust þeir sjö stigum yfir 42:35 þegar tæpar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Þá kom önnur gagnsókn hjá Grindvíkingum sem endaði með því að þeir leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 48:50.
Grindvíkingar byrjuðu þriðja leikhlutann betur og nýttu sér slæman kafla hjá heimamönnum sem töpuðu nokkrum boltum klaufalega. Staðan var því orðin 50:57 eftir tæpan tveggja mínútna leik. Finnur Jónsson tók þá leikhlé og las Skallagrímsmönnum pistilinn. Heimamenn hresstust við þetta, jöfnuðu leikinn og komust loks yfir þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum, 62:61. Enn snéru Grindvíkingar við blaðinu og náðu fjögurra stiga foystu 65:69 þegar þriðja leikhluta lauk.
Varnir liðanna réðu ferðinni í lokaleikhlutanum sem einkenndist af lágu stigaskori. Grindvíkingar héldu þó forystunni áfram. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir jafnaði Sigtryggur Arnar Björnsson leikinn með góðri þriggja stiga körfu 73:73. Grindvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson missti boltann í næstu sókn. Magnús Þór Gunnarsson setti þá góða tveggja stiga körfu fyrir Skallagrím og kom sínum mönnum yfir 75:73. Aftur runnu sóknir Grindvíkinga í sandinn. Nú var það Tracy Smith Jr. sem skoraði fyrir Skallagrímsmenn og kom þeim fjórum stigum yfir þegar liðlega ein og hálf mínúta var eftir. Heimamenn voru þó klaufar á lokamínútunni, nýttu ekki sóknartilraunir sínar og brutu á Grindvíkingum í vörninni sem fengu vítaskot. Þar tóku víti tveir bestu menn gestanna í leiknum, þeir Rodney Alexander og Jón Axel Guðmundsson, sem settu þau niður. Ekki kom karfa hjá Skallagrímsmönnum í blálokin og var staðan 77:77 eftir venjulegan leiktíma. Grípa þurfti því til framlengingar.
Skemmst er frá því að segja að bensínið kláraðist á Skallagrímstankinum í framlengingunni. Grindvíkingar náðu fljótt yfirhöndinni í framlengingunni og komust í 80:84 þegar tvær mínútur voru liðnar af henni. Eftirleikurinn reyndist hins vegar auðveldur fyrir gestina því Skallagrímsmenn skoruðu ekki körfu eftir þetta. Á meðan léku gestirnir við hvurn sinn fingur. Munurinn var að endingu fimmtán stig þegar yfir lauk, 80:95, sem sannarlega gefur ekki rétta mynd af því hvernig leikurinn þróaðist. Niðurstaðan var því súr fyrir heimamenn sem sáu á eftir tveimur mikilvægum stigum. Á sama tíma reyndist sigurinn sætur fyrir Grindvíkinga sem eru óðum að klifra upp töfluna í Dominos deildinni.“
Stigahæstir Grindvíkinga voru þeir Rodney Alexander með 25 stig og 11 fráköst og Jón Axel Guðmundsson með 23 stig.
Umfjöllun og mynd, skallagrimur.is