Sigur á Keflavík tryggði sæti í úrslitakeppninni

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík sótti Keflavík heim í lokaumferð Dominosdeildar kvenna í gær í hreinum úrslitaleik um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Okkar konur lögðu upp með 3-2 svæðisvörn sem Keflvíkingum gekk illa að leysa og með mikilli vinnusemi og góðu framlagi allra leikmanna lönduðu Grindvíkingar sigri, 77-84. Úrslitakeppnin er því staðreynd en þar mæta Grindvíkingar toppliði Hauka.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Grindavík hirti síðasta sætið í úrslitakeppni

Grindavík sigraði Keflavík með 84 stigum gegn 77 á heimavelli þeirra síðarnefndu, í TM Höllinni í Keflavík. Leikurinn var hluti af 24. umferð Dominos deildar kvenna, en það var sú síðasta sem spiluð verður í deildarkeppninni þetta árið. Fyrir leikinn var Grindavík í 4. sæti, með 2 stigum meira en Keflavík í því 5., en verri innbyrðisviðureign gagnvart þeim. Því hefði Keflavík, með sigri, getað tryggt sér 4. og síðasta sætið í úrslitakeppni þessa árs.

Tap Keflavíkur í þessum leik sögulegt allavegana að tvennu leyti. Hið fyrsta að enda deildarkeppnina í 5. sæti deildarinnar, en frá árinu 1985 hafði liðið aldrei endað neðar en í 3. sæti. Í annan stað sú staðreynd að Keflavík taki engan þátt í úrslitakeppni þessa árs, en það hefur aldrei gerst áður.

Grindavík mætir því meistaraefnum Hauka úr Hafnarfirði í fyrstu umferð (undanúrslitum) um Íslandsmeistaratitil þessa árs, en úrslitakeppnin hefst 30. þessa mánaðar.

Einhver leikmanna og þjálfaraskipti hafa farið fram á milli liðanna tveggja síðustu misseri. Ingunn Embla Kristínardóttir og Ingibjörg Jakobsdóttir spiluðu báðar áður með Keflavík en Grindavík núna. Guðlaug Björt Júlíusdóttir spilaði áður og Sverrir Þór Sverrisson þjálfaði í Grindavík áður, en nú í Keflavík.

Keflavík byrjaði leikinn aðeins betur en gestirnir voru þó fljótar að ná þeim. Staðan um miðbygg fyrsta leikhlutans var 11-9 fyrir heimastúlkum. Ljóst var snemma hver dagskipunin væri hjá Grindavík, það var að koma tuðrunni til Whitney Frazier og láta hana sjá um hlutina. Það svínvirkaði hjá þeim líka. Í þessum fyrsta leikhluta setti hún 13 stig. Hún sigldi þeim í nauma 19-24 forystu eftir þennan 1. leikhluta.

Í öðrum leikhlutanum er svipað upp á teningnum og í þeim 1. Grindavík skrefinu á undan. Ljóst var þó á leikmönnum Keflavíkur að þær ætluðu að berjast fyrir þessu úrslitakeppnissæti. Voru aldrei langt undan. Spila einnig frekar hratt og maður átti allt eins von á því á þessum tímapunkti að þær færu að keyra stigum á lið Grindavíkur. Sýndu því einnig merki. Komast 4 stigum frá þeim næst, 36-40. Áður en að Grindavík setur í smá lás varnarlega og nær að klára leikhlutann með 9 stiga forskoti, 36-45.

Atkvæðamest fyrir heimastúlkur í fyrri hálfleik var Thelma Dís Ágústsdóttir með 8 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Fyrir gestina var það áðurnefnd Whitney Frazier, en hún skoraði 21 stig, tók 6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Seinni hálfleikinn fór Keflavík betur af stað. Þá sérstaklega Monica Wright. Setti 7 stig á fyrstu 3 mínútum seinni hálfleiksins, 12 stig í heildina í hlutanum. Þær komast þó aldrei nær þeim en í lok leikhlutans, en þá var munurinn 1 stig, 60-61.

Engin teljandi villuvandræði voru á liði Grindavíkur fyrir lokaleikhlutann, Ingibjörg Jakobsdóttir og hin óstöðvandi Whitney Frazier þó með 3 hvor. Hjá Keflavík voru þær sem höfðu elt Whitney hvað mest í leiknum báðar með 4 villur, Sandra Lind Þrastardóttir og Marín Laufey Davíðsdóttir.

Fjórða leikhlutann byrjaði Grindavík betur. Settu 6 fyrstu stig hlutans og komu muninum aftur á svipuð mið og hann hafði verið í bróðurpart leiksins. Eru svo komnar með forystuna í 10 stig þegar að Sverrir Þór, þjálfari Keflavíkur, er nóg boðið og hann tekur leikhlé um miðjan leikhlutann. Næstu 1-2 mínútur á eftir var bæði eins og það hafi verið sett net yfir körfu Keflavíkurkvenna sem og að hendur þeirra væru útataðar í smjöri. Hálfgert óðgot hjá þeim þar sem það virtist virkilega erfitt fyrir þær að koma stigum á töfluna og vinna niður þennan mun. Lið Grindavíkur hélt áfram að gera það sem þær höfðu gert allan leikinn, berjast fyrir fráköstum, halda haus og koma boltanum í körfuna.

Þegar rúmar 2 mínútur eru eftir virðist eitthvað vera að fara að ganga hjá heimastúlkum. Emelía Ósk Gunnarsdóttir brýst í hraðaupphlaup og fær villu, karfan góð og með villunni þá 5. á Ingibjörgu Jakobsdóttur. Með vítinu kom hún muninum niður í 6 stig. Næst komust þær 5 stigum frá þeim þessi síðustu andartök leiksins, en ekki feti lengra. Að lokum fór svo að Grindavík sigraði með 7 stigum, 77-84.

Grindavík var betri aðilinn í dag. Þær héldu haus, allan leikinn. Hleyptu Keflavík þó í nokkur skipti ansi nálægt sér, leyfðu þeim hinsvegar (f/u í 1. leikhluta) aldrei að jafna eða komast yfir. Mestur var munur þeirra þó aðeins 11 stig í leiknum. Því í raun aldrei meira heldur en 3-4 sókna leikur fyrir heimastúlkur. Reyndar bróðurpart leiksins, aðeins 2 sókna forskot sem þær höfðu. Með öðrum orðum, grátlega nálægt fyrir Keflavík, en ekki nóg.

Maður leiksins var leikmaður Grindavíkur, Whitney Frazier, en hún skoraði 36 stig og tók 12 fráköst á 35 mínútum í kvöld.

Umfjöllun: Davíð Eldur

Tölfræði

Myndir

Viðtal við Ingunni Emblu á mbl.is

Viðtal við Daníel eftir leik:

Mynd með frétt: Víkurfréttir