Sex stig í 4. leikhluta dugðu skammt gegn Haukum

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík sótti Hauka heim í gær í Dominos deild kvenna en bæði lið voru taplaus fyrir þennan leik. Haukar eru með gríðarlega öflugt og vel mannað lið og var fyrir mót spáð efsta sæti í deildinni og því nokkuð ljóst að það yrði á brattan að að sækja fyrir Grindavík í þessum leik. Það var þó ekki að sjá á leik liðsins á upphafsmínútunum að þær væru mættar í þennan leik með einhverja minnimáttarkennd og var leikurinn í járnum fyrstu þrjá leikhlutana. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 44-43.

Þá sögðu Haukakonur hingað og ekki lengra og lokuðu leiknum af hörku. Grindavík skoraði aðeins 6 stig síðustu 10 mínúturnar gegn 21 stigi Hauka og lokatölurnar urðu 65-49. Skotnýtingin hjá Grindavík var afleit í þessum leik, eða aðeins 26% og fóru mörg auðveld og opin færi forgörðum í leiknum. Eftir stendur þó að liðið hefur aðeins tapað einum af fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni og sýndi í þessum leik að þetta Haukalið er alls ekki ósigrandi.

Karfan.is fjallaði ítarlega um leikinn. Myndin sem fylgir fréttinni er líka frá þeim, myndasafn hér.

Tölfræði leiksins.

Viðtal við Daníel Guðna þjálfara eftir leikinn

Viðtal við Sigrúnu Sjöfn eftir leikinn