Sara Hrund Helgadóttir, sem undanfarin ár hefur verið einn af máttarstólpum meistaraflokks kvenna í knattspyrnu ásamt því vera fyrirliði kvennaliðs University of West Florida, hefur tekið sér tímabundið hlé frá knattspyrnuiðkun vegna síendurtekinna höfuðmeiðsla.
Hún greinar frá ákvörðuninni á Facebook-síðu sinni en Sara rotaðist í leik gegn ÍBV á dögunum og uppskar sinn 6. heilahristing á 8 árum. Sara segist því ætla að taka sér tímabundið hlé og einbeita sér að því að ná heilsu á ný, og vonar að hennar saga verði öðrum leikmönnum víti til varnaðar í framtíðinni.
Pistill Söru Hrundar í heild sinni:
Allt er þegar 6 er…
Sjötti heilahristingurinn staðreynd og stöðug barátta við höfuðverki í 8 ár vegna rangra viðbragða vegna höfuðhöggs því miður niðurstaðan. Fótbolti hefur verið líf mitt síðustu 20 árin og þess vegna lét ég þetta ekki stöðva mig enda hefur fótboltinn gefið mér svo mikið, meðal annars að fara til USA og upplifa drauminn minn. En núna er tími til þess að stoppa og hlusta á líkamann, eftir að ég rotaðist í leik fyrir rúmum 2 vikum og hélt áfram að spila í rúmar 15 mínútur og eftir það hefur daglega lífið mitt raskast verulega. Á 2 vikum fór ég frá því að spila heilan fótbolta leik án vandræða í 10 mín göngutúr með vandræðum.
Framundan hjá mér eru strembnir mánuðir í endurhæfingu þar sem ég ætla að tækla þetta og ná mér. Því eru takkaskórnir settir tímabundið til hliðar og ég ætla að fókusa á að ná mér. Ég vona að ég geti verið víti til varnaðar fyrir aðra og að viðbrögð þeirra sem standa að liðunum verði betri. Viðbrögð vegna höfuðhögga á Íslandi eru því miður ekki nógu góð og vona ég að fólk fari að taka þau alvarlega. Það er auðvelt að bregðast við meiðslum líkt og beinbrotum þar sem þau eru sýnileg, höfuðáverkar eru ekki sýnilegir en það gerir þá engu að síður mjög hættulega og afleiðingar geta verið alvarlegar. Ef þið fáið höfuðhögg og finnið fyrir einkennum farið útaf!! En ábyrgðin er ekki hjá leikmanni sem er ekki alltaf með getu að segja til um hvort þau geti haldið áfram, því er mjög mikilvægt að þjálfarar og sjúkraþjálfarar séu meðvitaðir um einkenni og afleiðngar höfuðhögga!
Takk fyrir samveruna innan sem utan vallar, þetta hefur verið frábært og vonandi verða leikirnir fleiri í framtíðinni.