Sannfærandi sigur á Snæfelli

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík skellti Snæfelli með 110 stigum gegn 102 í úrvalsdeild karla í körfubolta og hefur þar með unnið báða leiki sína. Samuel Zeglinski fór hamförum hjá Grindavík og skoraði 35 stig og Aaron Broussard kom næstur með 28.

Grindavík náði stax yfirhöndinni og hafði 6 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta og 9stiga forskot í hálfleik, 56-47. Þriðja leikhlutann var Grindavík með 8 stiga mun en gaf svo eftir á lokasprettinum en öruggur 8 stiga sigur engu að síður staðreynd.

Á vefnum karfan.is kemur fram að þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum fékk Aaron Broussard högg á höfuðið og var honum skipt útaf. „Hann fór útaf í hálfa mínútu og tilkynnti Sverri Þór Sverrisyni að hann væri í góðu lagi. Aaron fór því aftur inná þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir af leiknum. Aaron kláraði leikinn og setti meðal annars niður tvö lay-up á síðustu fjóru mínútunum. Þegar leiknum lauk kom í ljós að Aaron var út úr kortinu og mundi ekki einu sinni eftir því að hafa spilað seinustu fjórar mínúturnar og fyrri partur leiksins var allur óskýr. Hann hafði misst minnið og sat og beið eftir sjúkrabíl þegar leiknum lauk. Eftir frekari athugun var Aaron Broussard útskrifaður og á leið til Grindavíkur aftur,” segir karfan.is

Grindavík-Snæfell 110-102 (29-23, 27-24, 30-22, 24-33)

Grindavík: Samuel Zeglinski 37/5 fráköst/8 stoðsendingar, Aaron Broussard 28/9 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/8 fráköst, Þorleifur Ólafsson 12, Jóhann Árni Ólafsson 9/7 fráköst/7 stoðsendingar, Davíð Ingi Bustion 6, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Jón Axel Guðmundsson 3, Ómar Örn Sævarsson 0/5 fráköst.

Sverrir Þór: Frábær sigur

„Þetta var frábær sigur á sterku liði,” sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur við Vísi. „Við spiluðum vel í sókn en vorum þó langt frá okkar besta í varnarleiknum. Þeir náðu alltaf að koma sér aftur inn í leikinn.”

„Ég er þó gríðarlega ánægður með sigurinn. Okkar erlendu leikmenn voru mjög áberandi í sókninni – Sammy hitti alveg svakalega og þeir báðir voru bara flottir. Við hittum ekki vel fyrir utan þannig að stóru mennirnir okkar voru ekki að fá mikið inn í teignum.”

„Það er vissulega of mikið að fá 102 stig á sig en stundum vill það verða þannig þegar leikurinn er hraður og leikmenn eru duglegir að skjóta. Ég er sáttur á meðan við vinnum en ég vil að sjálfsögðu halda andstæðingum okkar í færri stigum. Það er á hreinu.”