Sæti í úrslitakeppninni tryggt með góðum sigri á Fjölnismönnum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík og Fjölnir mættust í gærkvöldi í hörkuleik sem var mjög mikilvægur fyrir bæði lið. Heimamenn gátu með sigri tryggt sig inn í úrslitakeppnina og jafnvel klifrað aðeins ofar í töfluna til þess að sleppa við að mæta KR eða Tindastóli í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fyrir Fjölni var leikurinn nánast upp á líf og dauða en Fjölnismenn eru í þéttum þriggja liða pakka í fallbaráttunni. Sigur í kvöld hefði lyft þeim úr fallsæti, a.m.k. þangað til annað kvöld þegar ÍR og Skallagrímur mætast.

Fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu beggja liða og augljóst að hvorugt lið ætlaði að gefa þumlung eftir. Grindvíkingar fóru að vísu heldur betur af stað og rétt í byrjun leit út fyrir að þeir ætluðu að stinga af, staðan 24-11 eftir fyrsta leikhluta. Lítið var um villur þó svo að leikurinn væri leikinn nokkuð fast og lét Hjalti Þór, þjálfari Fjölnis, þetta greinilega fara svolítið í taugarnar á sér og lét dómarana heyra það. Leifur Garðarsson lét ekki bjóða sér það og aðvaraði Hjalta sem hélt sig á mottunni eftir það og engar tæknivillur voru dæmdar.

Fjölnismenn vöknuðu hressilega í 2. leikhluta og unnu hann nokkuð sannfærandi, 11-24 og voru því yfir í hálfleik, 39-40. Jonathan Mitchell dró vagninn nánast einn sóknarlega í fyrri hálfleik en hann var að hitta mjög vel og var kominn með 20 stig, eða helming stiga Fjölnismanna.

Sama barátta einkenndi 3. leikhluta. Fjölnismenn keyrðu upp hraðann og dómararnir höfðu greinilega ákveðið að leyfa leiknum að flæða. Hvorugt liðið komst í bónus nema rétt undir lokin þegar Fjölnismenn fóru að brjóta til að stoppa klukkuna. Alls voru ekki tekin nema 25 víti í leiknum og þótti Grindvíkingum stundum Fjölnismenn fá að ganga ansi hart fram undir körfunni án þess að fá dæmdar á sig villur. Fékk Rodney Alexander að finna vel fyrir því frá varnarmönnum Fjölnis og þurfti að yfirgefa völlinn í 3. leikhluta eftir að hafa orðið fyrir hnjaski og haltrað um völlinn um stund. Hann snéri þó aftur í 4. leikhluta og þrátt fyrir að vera nánast á annarri löppinni og virka frekar þreyttur eftir átökin í teignum lokaði hann leiknum með rosalegri troðslu.

Grindvíkingar voru svo sterkari á lokakaflanum. Þegar 6 mínútur voru eftir var staðan 67-66 en þá sögðu Grindvíkingar hingað og ekki lengra og settu 13 stig gegn 4 á þremur mínútum og staðan orðin 80-70. Fjölnismenn gáfust ekki upp en virkuðu hálf ráðviltir í sóknaraðgerum sínum meðan að heimamenn hertu einfaldlega tökin og sigldu heim öruggum sigri 89-75. Lokatölurnar gefa kannski ekki rétta heildarmynd af leiknum, Fjölnismenn voru inn í þessu þangað til að 6 mínútur voru eftir en þá kom reynslan sér vel hjá Grindvíkingum sem kláruðu leikinn örugglega.

Stigahæstur í leiknum var áðurnefndur Jonathan Mitchell með 35 stig og 12 fráköst sem skilaði heilum 40 framlagsstigum. Var hann algjör yfirburðamaður sóknarlega hjá Fjölni en næstur kom Davíð Bustion með 12 stig en aðrir leikmenn skoruðu mun minna.

Hjá heimamönnum dreifðist stigaskorið betur þó svo að Rodney hafi verið langstigahæstur með 30 stig og 11 fráköst. Oddur setti 16 (4/8 í þristum), Ólafur Ólafs 15 (3/6 í þristum) og Jón Axel skoraði 12, gaf 10 stoðsendingar og stal 4 boltum.

Dýrmætur sigur hjá Grindvíkingum sem hefðu auðveldlega getað látið dómgæsluna pirra sig og misst tökin á leiknum en í staðinn héldu þeir haus og kláruðu dæmið nokkuð örugglega. Eftir leikinn sitja Grindvíkingar, a.m.k. tímabundið, í 6. sæti en Fjölnismenn eru komnir í mjög erfiða stöðu í 11. sæti og verða að reiða sig á hagstæð úrslit í öðrum leikjum ef þeir ætla að bjarga sér frá falli.

Tölfræði

Myndasafn (Davíð Eldur)

Umfjöllun þessi birtist áður á karfan.is