Rýr uppskera Grindvíkinga í Ólafsvík um helgina

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingum tókst ekki að sækja gull í greipar Víkings í Ólafsvík um helgina þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þrjú lið Grindvíkinga léku á Ólafsvíkurvelli um helgina, meistaraflokkur karla, 2. flokkur karla og meistaraflokkur kvenna, og snéru liðin heim með 2 stig í farteskinu af 9 mögulegum.

Strákarnir í meistaraflokki riðu á vaðið á laugardeginum en riðu þó ekki feitum hesti frá því. Liðinu gekk afar illa að skapa sér færi og Víkingar léku vörnina vel og af þolinmæði. Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik en okkar menn reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn í þeim seinni en lítið gekk. Að lokum borgaði þolinmæði heimamanna sig og þeir settu annað mark rétt áður en flautað var til leiksloka og lokatölur 2-0.

Eftir þennan leik sitja Grindvíkingar í 8. sæti með 10 stig og ljóst að nú þarf að fara að girða í brók. Næsti leikur er útileikur á Akureyri gegn Þórsurum þann 3. júlí.

Hinar taplausu konur í meistaraflokki kvenna gerðu svo aðra atlögu að Víkingum á sunnudeginum. Lokatölur urðu 2-2, en eftirfarandi umfjöllun birtist á Facebook síðu knattspyrnudeildarinnar:

„Leikið í glampandi sól og hita. Urðum við að sætta okkur við 2-2 jafntefli að lokum. Við skoruðum strax á 2. mínútu og þar var Pete að verki. Flott spil hjá okkar stúlkum en við áttum frekar erfitt að brjóta þétta vörn þeirra niður og koma boltanum framhjá sterkum markmanni þeirra. Ólafsvíkingar ná svo að jafna á 38. mínutu. 1-1 í hálfleik. Við erum svo mun meira með boltann og mun meira spilandi en þær sem voru þéttar aftast og treystu mikið á framherjann sinn með löngum skotum fram á við. Það er svo á 70. mínútu sem þær komast yfir 2-1. Vð gáfum enn betur í við markið og sóttum fast sem endaði með því að þær setja boltann í sitt eigið mark eftir harða sókn okkar stúlkna. 2-2. Við sóttum að þeim það sem eftir var en komum tuðrunni ekki inn og lokatölur 2-2. Þær eru með mjög sterka leikmenn sem spiluðu frekar aftarlega á vellinum og því mikill pakki þarna aftast.

En það má alveg gera athugasemd við dómaratríó vallarins þar sem dómarinn er stjórnarmaður í FH sem er að berjast vð okkur um efsta sæti riðilsins og annar aðstoðardómarinn var bara alls ekki starfi sínu vaxinn og gaf þeim bókstaflega fyrsta markið þar sem um augljóslega rangstöðu var að ræða og hann ekki með augun á réttum stað á velinum. En því miður ráðum við ekki við þær aðstæður og því fór sem fór“

Næsti leikur hjá stelpunum er bikarleikur úti gegn Fylki 2. júlí en næsti leikur í deildinni er heimaleiku gegn FH 15. júlí.

Að lokum reyndu strákarnir í 2. flokki að sækja 3 stig á Snæfellsnesið en þeir mættu sameiginlegu liði Snæfellinga. Strákarnir hafa farið vel af stað í sumar og eru í 2. sæti síns riðils en Snæfellingar í 3. Úr varð hörkuleikur sem endaði með jafntefli, 1-1.

Lið 2. flokks karla.