Á dögunum var Rúnar Sigurður Sigurjónsson sæmdur gullmerki KSÍ. Það gerði æskuvinur hans, Ingvar Guðjónsson þann 30. ágúst síðastliðinn þegar þeir félagar héldu sameiginlega upp á 50 ára afmælin sín í íþróttahúsinu. Veislan fór fram að viðstöddu fjölmenni en báðir hafa þeir Rúnar og Ingvar unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu knattspyrnunnar hér í Grindavík.
Það var Knattspyrnudeild Grindavíkur sem fjallaði um þessa viðurkenningu á Facebook síðu sinni en þar segir:
“30. ágúst héldu æskuvinirnir Rúnar Sigurður Sigurjónsson og Ingvar Guðjónsson upp á fimmtugsafmælin sín saman með pompi og prakt. Við það tilefni var Rúnar sæmdur gullmerki KSÍ fyrir vel unnin störf í þágu Grindavíkur og knattspyrnuhreyfingarinnar. Það var Ingvar sem er fyrrverandi stjórnarmaður KSÍ sem fékk þann heiður að næla gullmerkinu í vin sinn Rúnar.
Rúnar spilaði með Grindavík upp alla yngri flokkana og lék í meistaraflokki við góðan orðstýr en hann var m.a. valinn besti leikmaður meistaraflokks aðeins 18 ára að aldri. Hann var ennig hluti af liðinu sem vann fyrsta Íslandsmeistaratitlinn fyrir Grindavík árið 1988.
Rúnar var einn af þeim sem stofnuðu lið GG fyrir 25 árum síðan og var fyrsti þjálfari liðsins ásamt því að spila með liðinu. Hann hefur verið í stjórn Knattspyrnudeilarinnar í mörg ár og m.a. setið sem varaformaður. Einnig hefur hann verið í meistaraflokksráði karla, formaður unglingaráðs og farið í margar keppnisferðirnar sem fararstjóri. Fyrir utan öll önnur störf sem hann hefur unnið síðustu áratugi í óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi fyrir félagið okkar og knattspyrnuhreyfinguna. Rúnar hefur einnig verið einn af aðal mönnunum í undirbúningi og framkvæmd lokahófanna okkar í gegnum árin.
Það er okkur sannur heiður að hafa hann Rúnar með okkur í okkar starfi og vonandi eigum við eftir að njóta krafta hans eins lengi og auðið er. Óskum við honum innilega til hamingju með þessa viðurkenningu á hans starfi.”
Við tökum að sjálfsögðu undir þessi orð og óskum Rúnari innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu með kærri þökk fyrir hans framlag í gegnum tíðina.
Meðfylgjandi myndir fylgdu fæslunni á Facebook.
Rúnar var einn af stofnendum GG árið 1994 og var fyrsti þjálfari liðsins auk þess að spila með liðinu
Fyrsti Íslandsmeistaratitill Grindavíkur í höfn. Rúnar er í efri röð 2 f.h.
GG liðið í háloftunum
Rúnar hefur eytt ófáum klukkutímunum í undirbúning og framkvæmd lokahófanna okkar