Karlalið Grindavíkur hefur samið við nýjan erlendan leikmann, Rodney Alexander. Hinn nýji leikmaður er íslenskum körfuknattleiksunnendum sennilega vel kunnur en hann lék með ÍR-ingum í lok móts 2012 og sýndi oft á tíðum glæsileg tilþrif en Rodney er mikill háloftafugl, með gríðarlega stökkkraft og næmt auga fyrir troðslum. Liðsfélagar hans í háskólaboltanum kölluðu hann gjarnan ,,flight”, eða ,,flugið”, sökum þess hve fimlega hann sveif um loftin.
Rodney lék síðast í Ísrael og þar áður í Mexíkó og var að skora um 15 stig að meðaltali í báðum deildum. Hann mun væntanlega nýtast Grindvíkingum vel í teignum og vonandi fylla það skarð sem Sigurður Þorsteinsson skyldi eftir sig þegar hann fór í atvinnumennskuna í Svíþjóð.
Rodney er þriðji erlendi leikmaðurinn sem Grindvíkingar semja við í vetur. Sá fyrsti, Brendon Roberson, stóð engan veginn undir væntingum og næsti, Joel Haywood, féll ekki nógu vel að þörfum liðsins og hefur nú verið skipt úr fyrir miðherja sem er 2,03 á hæð en Haywood var lágvaxinn leikstjórnandi.
Grindvíkingar verða þó Kanalausir í kvöld þegar þeir mæta KR á útivelli þar sem Rodney er ekki kominn til landsins en vonandi verða öll leyfi og pappírsvinna klár fyrir næsta heimaleik.