Haukar hafa ráðið Grindvíkinginn Pétur Rúðrik Guðmundsson sem nýjan þjálfara í Iceland Express deildinni í körfubolta. Hann segir því skilið við aðstoðarþjálfarastarfið hjá kvennaliði Keflavíkur og tekur nú við sínu fyrsta liði í úrvalsdeild karla sem aðalþjálfari. Pétur tekur við þjálfun liðsins af Pétri Ingvarssyni sem sagði skilið við félagið á dögunum.
Pétur Rúðrik Guðmundsson hefur verið aðstoðarþjálfari í úrvalsdeild karla m.a. með þeim Friðriki Inga Rúnarssyni, Friðriki Ragnarssyni og Guðjóni Skúlasyni og verið aðalþjálfari kvennaliðs Grindavíkur svo hann er ekki óreyndur í starfanum en tekur nú við stýrinu í efstu deild í fyrsta sinn.
Um þriggja ára samning millum Péturs og Hauka er að ræða en hann tekur við Hafnfirðingum í 10.-11. sæti deildarinnar og er liðið með 2 stig eftir sex umferðir.
Mynd karfan.is / Pétur fyrir miðju ásamt Samúel Guðmundssyni formanni KKD Hauka t.v. og t.h. er Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri Hauka. Leikmennirnir á myndinni eru þeir Haukur Óskarsson t.v. og Emil Barja t.h.