Pape: Þarf fimm leiki til þess að vinna bikarinn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

„Við byrjuðum leikinn ekkert sérstaklega vel en sem betur fer tókst okkur að skora í fyrri hálfleiknum og klára leikinn í kjölfarið. 3-0 sigur í bikarnum er bara mjög fínt,” sagði Pape Mamadou Faye leikmaður Grindavíkur eftir sigurinn á Víkingi í gærkvöldi í bikarnum, við fótbolta.net.

Athygli vakti að Pape fór meiddur af velli snemma í síðari hálfleiknum en hann vildi ekki meina að meiðslin væru of alvarleg.

„Mjöðmin er eitthvað að stríða mér og er ekkert sem ég get gert í því. Ég er búinn að spila níutíu mínútur tvisvar núna á stuttum kafla og ég fann virkilega mikið til í mjöðminni,” bætti Pape við.

„Mér er alveg sama hverjum við mætum. Það væri ekkert leiðinlegt að fá Þrótt en annars er mér alveg sama.

„Það þarf bara að vinna fimm leiki til þess að vinna bikarinn. Nú erum við einum leik frá úrslitaleiknum og þangað ætlum við að fara,” sagði Pape Mamadou Faye, leikmaður Grindavíkur í leikslok.

Guðjón: Stefnan sett á úrslitaleikinn

„Við vissum að Víkingarnir myndu koma sterkir inn í leikinn. Við þurftum að halda haus og spila varnarleikinn vel. Leikurinn breytist svo gjörsamlega þegar við náum öðru markinu í seinni hálfleiknum. Þetta var í rauninni vinnuatriði eftir það að klára þennan leik, úrvinnsla af okkar hálfu,” sagði Guðjón við fótbolta.net.

„Stefnan er að sjálfsögðu sett á úrslitaleikinn. Ég væri alveg til í að fá Þrótt í undanúrslitunum, það liggur í augum uppi. Við teljum okkur samt eiga fulla möguleika í öll liðin sem eru í pottinum,” sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur í leikslok.

Mynd: fotbolti.net.