Pape handleggsbrotnaði í gær: Heppinn að þetta er í janúar

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Pape Mamadou Faye leikamaður Grindavíkur varð fyrir því óláni að handleggsbrotna í 4-0 sigri liðsins gegn Selfossi í gær. Hann þarf að vera í gifsi í allt að mánuð vegna meiðslanna, en hann kláraði leikinn þrátt fyrir brotið.

„Þetta gerðist í leiknum í gær. Ég lenti í samstuði við varnarmenn Selfyssinga eftir einhverja fyrirgjöf og lenti illa á hendinni. Þá byrjaði ég að finna einhvern verk en vissi ekki að ég væri handleggsbrotinn. Ég hélt áfram að spila og kláraði leikinn, þetta var ekkert það slæmt á meðan leik stóð,” sagði Pape við Fótbolta.net.

„Þegar maður fór að kólna, þá kom verkurinn og þetta fór versnandi og byrjaði að bólgna. Ég hélt að þetta væri bara smá tognun en síðan vaknaði ég í morgun og ætlaði að fara á æfingu. Þá sá ég að þetta væri orðið slæmt. Ég fór upp á slysó í myndatöku og komst að því að ég væri handleggsbrotinn.”

Pape hefur verið sjóðheitur í liði Grindvíkinga á undirbúningstímabilinu og raðað inn mörkum. Hann skoraði meðal annars tvö mörk í sigrinum í gær.

„Þetta hefur gengið vel hjá mér í öllum þessum leikjum sem ég er búinn að spila fyrir Grindavík og ég er búinn að skora í nánast hverjum leik. Það er náttúrulega leiðinlegt að þetta gerist á þeim tíma, en þetta er bara týpískur fótbolti – stundum er maður bara óheppinn,” segir Pape, en viðurkennir þó að hann sé feginn að þetta hafi gerst í janúar en ekki nær móti.

„Ég þarf bara að vera í gifsi í 3-4 vikur en svo má ég byrja að æfa aðeins. Ég veit ekki hvort að ég geti farið í fótbolta strax, það verður bara að koma í ljós. Ég er í raun heppinn að þetta hafi gerst í janúar, ég verð alveg orðinn klár fyrir Pepsi deildina.”

Líkt og áður kom fram skoraði Pape tvö mörk í leiknum í gær, en hann hafði áður lofað tvennu á Twitter-síðu sinni. Hann var sáttur með að geta staðið við loforðið og sagði sjálfstraustið vera í botni.

„Já, ég var eitthvað að ræða við Elvar Geir (annan ritstjóra Fótbolta.net) um hvað möguleikar okkar væru. Þar sem ég var búinn að skora í fjórum leikjum í röð var ég ekkert að fara að hætta. Sjálfstraustið var til staðar og ég fann það á mér að ég gæti skorað tvö mörk eða fleiri,” sagði Pape Mamadou Faye við Fótbolta.net.

Pape setti þessa mynd af sér í gifsinu á Twitter síðu sína.