Óskar verður áfram hjá Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Óskar Pétursson, markvörður Grindvíkinga, mun verða áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð. Þetta staðfestir hann í samtali við Víkurfréttir. Hann hafði verið orðaður við nokkur lið í Pepsi-deildinni en Grindavík féll sem kunnugt er úr Pepsi-deildinni í sumar.

„Það er nánast frágengið að ég verði áfram í Grindavík. Ég tel þetta ekki rétta tímann til að stökkva frá borði,” segir Óskar við Víkurfréttir. „Ef ég fer einhvern tímann frá Grindavík þá verður það ekki í þessari stöðu. Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu og mér lýst vel á þær hugmyndir sem hafa verið lagðar fram með næsta tímabil.”

Grindvíkingar léku afleitlega í sumar og urðu í neðsta sæti í Pepsi-deildinni. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta munu Grindvíkingar ekki endursemja við Guðjón Þórðarson og er Milan Stefán Jankovic talinn líklegastur til að taka við liðinu.

Óskar er með samning við Grindavík út næsta tímabil en mun líklega endursemja við liðið á næstu dögum. „Andinn í hópnum er góður og flestir tilbúnir að takast á við það verkefni að koma liðinu beint upp í Pepsi-deildina. Ég er bjartsýnn á að það takist. Við munum reyna að gera það á réttum forsendum og á þeim kjarna sem nú þegar er fyrir í liðinu,” sagði Óskar sem gæti orðið fyrirliði liðsins á næsta tímabili.