Óskar og Ingibjörg Yrsa íþróttamaður og kona ársins 2011

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Óskar Pétursson og Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir voru valin íþróttamaður og íþróttakona Grindavíkur árið 2011 við hátíðleg athöfn á gamlársdag í Hópsskóla. Óskar var fyrirliði og lykilmaður í knattspyrnuliði Grindavíkur í sumar og Ingibjörg Yrsa var lykilmaður bæði í körfubolta- og knattspyrnuliðum Grindavíkur í ár.

Ingibjörg fékk 81 stig af 100 mögulegum og Óskar 79. Þetta er þriðja árið í röð sem kjörið er kynjaskipt. Sem fyrr var starf UMFG kraftmikið í ár og komu alls 4 Íslandsmeistaratitlar í hús og einn Norðurlandameistaratitill. UMFG og afreksstjóður Grindavíkur stóðu fyrir kjörinu. Fjölmenni var við afhendinguna. Róbert Ragnarsson bæjarstjóri afhenti íþróttafólki ársins verðlaunin að þessu sinni en Kristinn Reimarsson, frístunda- og menningarfulltrúi, stýrði samkomunni. Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari körfuboltaliðs Grindavíkur afhenti einnig verðlaun.

Ýmis önnur verðlaun voru veitt eins og hvatningarverðlaun ungmenna (sem voru nú einnig kynjaskipt í fótbolta og körfubolta í fyrsta skipti), fyrir fyrstu landsleikina, fyrir Íslands- og bikarmeistaratitla ársins og svo fékk ein hlaupadrottning sérstök verðlaun ásamt körfuboltaliði ÍG. Sjá nánar um öll þessi verðlaun í myndatextunum hér að neðan.

Hér má sjá nánari upplýsingar um þá sem voru tilnefndir í kjörinu.


Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir íþróttakona ársins og Óskar Pétursson íþróttamaður ársins.


Þær voru tilnefndar sem íþróttakona ársins 2011: Anna Þórunn Guðmundsdóttir frá knattspyrnudeild, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir frá knattspyrnudeild og körfuknattleiksdeild, Berglind Anna Magnúsdóttir frá körfuknattleiksdeild, Svanhvít Helga Hammer frá GG, Sunneva Jóhannsdóttir frá sunddeildinni og Ylfa Rán Erlendsdóttir frá taekwondódeild.


Þeir voru tilnefndir sem íþróttamenn ársins 2011: Páll Axel Vilbergsson frá körfuknattleiksdeild, Óskar Pétursson frá knattspyrnudeild, Jónas Þórhallsson tók við viðurkenningu fyrir Alexander Magnússon frá knattspyrnudeild, Ólafur Ólafsson frá körfuknattleiksdeild, Björn Lúkas Haraldsson frá júdódeild, Bergvin Ólafarson frá körfuboltaliði GG og Friðrik Ámundason sem tók við viðurkenningu fyrir Davíð Arthur Friðriksson frá GG.


Þau fengu hvatningarverðlaunin: Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari meistaraflokks karla í körfubolta sem afhendi verðlaunin. Daníel Leó Grétarsson frá knattspyrnudeild, Elsa Katrín Eiríksdóttir frá fimleikadeild, Hilmir Kristjánsson frá körfuknattleiksdeild, Ingibjörg Sigurðardóttir bæði frá knattspyrnudeild og körfuknattleiksdeild, Alexander Már Bjarnason frá sunddeild, Viðar Hammer Kjartansson frá júdódeild og Sigurður Helgi Hallfreðsson frá GG.


Þau fengu verðlaun fyrir spila sína fyrstu landsleiki, öll fyrir yngri landsliðin í körfubolta: Jón Axel Guðmundsson, Hilmir Kristjánsson, Ingibjörg Sigurðardóttir og Julia Lane F. Sicat ásamt Helga Jónasi sem afhenti verðlaunin. Á myndina vantar Hinrik Guðbjartsson.


8. flokkur karla í körfubolta varð Íslandsmeistari og var verðlaunaður ásamt þjálfurum sínum.


Þeir fengu viðurkenningu fyrir titla í einstaklingsíþróttum á árinu: Reynir Berg Jónsson Íslandsmeistari í U17 í júdó í sínum þyngdarflokki, Björn Lúkas Haraldsson Íslandsmeistari U17 og Norðurlandameistari U17 í sínum þyngdarflokki og Ylfa Rán Erlendsdóttir Íslandsmeistari í unglingaflokki í taekwondó í sínum þyngdarflokki. Með þeim er Helgi Jónas Guðfinnsson.


Körfuboltalið ÍG sem vann 2. deildina síðasta vor var verðlaunað.


María Jóhannesdóttir fékk viðurkenningu frá afrekssjóði fyrir að taka þátt í í Trans Gran Canaria ofurhlaupi ásamt Kristínu Bucholz og Önnu Sigríði Sigurjónsdóttur en þær hlupu hvorki meira né minna en 123 km um holt og hæðir Kanaríeyja og komu saman í mark eftir rúmar 29 klukkustundir. Bjarni Már Svavarsson formaður UMFG afhendir henni verðlaunin. Sjá nánar um hlaupið hér.