Öruggur heimasigur um helgina – úrslitakeppnin í sjónmáli

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur náðu sér í mikilvægan sigur um helgina í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni þegar þær sigruðu Stjörnuna, 83-66. Þær sitja því í 4. sætinu einar í augnablikinu en Keflavík tapaði fyrir Haukum um helgina. Síðasti leikur Grindavíkur í deildinni er einmitt gegn Keflavík og er ekki ósennilegt að það verði hreinn úrslitaleikur um 4. og síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Karfan.is sendi útsendara sinn, Sigurbjörn Daða Dagbjartsson, á leikinn í forföllum síðuhaldara sem var bundinn í báða skó í tengslum við Menningarviku:

Áreynslulaus heimasigur í Grindavík

Það var væntanlega munur á stærð bardagans í hundi Grindavíkur og Stjörnunnar fyrir leik liðanna í Úrvalsdeild kvenna í Grindavík í dag. Grindavík í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina en Stjarnan siglir hinn óspennandi lygna sjó, ekki með möguleika á að lengja tímabilið eða falla. Ekkert lið fellur úr Úrvalsdeild kvenna þetta árið þar sem liðum fækkaði um 1 lið síðan í fyrra.

Í borgaralegum klæðnaði hjá heimastúlkum voru hin ólétta heimasæta, Lilja Ósk og svo sneri Helga Einars illa á sér ökklann í sigurleiknum á móti Hamri í síðustu umferð. Skv. Danna þjálfara þá má búast við að hún verði hið minnsta 2 vikur frá. Hjá Stjörnunni var Ragna Margrét enn og aftur frá og svo sannarlega skarð fyrir skyldi.

Leikurinn byrjaði í nokkru jafnvægi en 2 þristar frá Ingibjörgu komu heimastúlkum í bílstjórasætið. Gestirnir þó ekki langt á eftir. En eftir miðbik fyrsta leikhluta hertu heimastúlkur á vörninni og Whitney setti nokkrar auðveldar körfur og Grindavík því komið í þægilega 21-8 forystu og Berry, þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé. Það breytti ekki miklu en Stjarnan hægði á heimastúlkum sem gáfu svo aftur í undir lok fyrsta leikhlutans og leiddu að honum loknum, 30-14.

Ljóst eftir þennan fyrsta fjórðung í hvað stefndi. Grindavíkurstúlkur á fullu gasi og þegar þær spila þannig þá eru þær ansi góðar. Hægt og bítandi bættist í muninn, þríhyrningssóknin var að rúlla vel og trekk í trekk komu opin skot og mörg hver fyrir aftan 3-stiga línuna. Vörnin líka sterk. Helmingsmunur sást rétt fyrir leikhlé, 52-26 en þegar haldið var í pásuna var staðan 54-29.
Nokkuð skemmtileg dreifing á stigaskori Grindvíkinga sem segir kannski margt um gæði sóknarleiksins. Whitney sem fyrr stigahæst með 18, Sigrún Sjöfn og Íris sem kom sterk af bekknum með 10, Ingunn með 7 og Ingibjörg föst í sínum 6 stigum.
Hjá Stjörnunni var Bryndís Hanna komin með 9 stig og Hafrún og Eva María 6 stig. Erlendi leikmaðurinn, Adrienne Godbold ekki beint að heilla með sín 2 stig (1/6 í skotum utan af velli og 0/4 í vítum……)

Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik og fljótlega fór munurinn upp í 30 stig og deginum ljósara hvoru megin stigin tvö myndu enda. Stjarnan ætlaði þó ekki að leggjast alveg flatt fyrir þeim gulklæddu og komu aðeins til baka, það mikið að Danni sá ástæðu til að taka leikhlé. Munurinn strax upp í 30 stigin aftur og staðan fyrir lokabardagann, 75-44.

Hvað skal segja um 4. leikhlutann? Löngu ljóst um úrslitin og minni spámenn fóru að týnast inn á. Stjarnan klóraði aðeins í bakkann en að sjálfsögðu skipti það engu máli. Öruggur sigur heimakvenna staðreynd, 83-66.

Eins og oft áður í vetur þá var Whitney besti leikmaður Grindavíkur og endaði með 27 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar. Aðrar sem fóru yfir 10 stiga múrinn voru Ingunn Embla með flotta tvennu, 15 og 10 fráköst (+ 3 varin skot en 5 tapaða bolta), Sigrún Sjöfn með 12 stig (7 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta) og Íris Sverris með 10 stig. Eftir hina sterku byrjun Ingibjargar þá endaði hún með 8 stig en þarf að passa boltann betur, tapaði 5 í dag.

Hjá Stjörnunni stóð Örlygsblóðið, Margrét Kara Sturludóttir og Hafrún Hálfdánardóttir upp úr. Kara ekki langt frá því að vera með tvennu (8 stig og 16 fráköst) og Hafrún erfið við að eiga inni í teig og setti 19 stig og tók 6 fráköst. Þær stöllur mættu reyndar passa betur upp á boltann, töpuðu sitthvorum 5 í dag. Bryndís Hanna Hreinsdóttir setti 12 stig og Adrienne girti sig aðeins í brók eftir hlé og endaði með 10 stig og 7 fráköst.

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur: „Ég var mjög ánæður með mína leikmenn, hvernig þær nálguðust leikinn. Þær héldu allan áfram allan tímann og þegar við gerum það þá getum við siglt fram úr þessum liðum. Varðandi framhaldið þá líst mér bara vel á það, sérstaklega ef ég tek mið af frammistöðunni í dag þar sem við spiluðum nánast óaðfinnanlega. Ég er spenntur fyrir framhaldinu”. Aðspurður út í þríhyrningssóknina sem var að virka vel í dag: „Þríhyrningssóknin er kannski ekki auðveldasta sóknin fyrir alla en við vitum hvar okkar styrkleikar liggja og vorum að nýta þá fullkomlega í dag. Allir leikmenn inn á eru góðir sóknarmenn og þegar við framkvæmum sóknina vel þá fáum við góð skot”.

Grindvíkingurinn Bryndís Gunnlaugsdóttir, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar: „Við förum í alla leiki til að vinna, svo einfalt er það en við mættum bara virkilega góðu Grindavíkurliði hér í dag. Þær eru auðvitað að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni og voru að hitta frábærlega hér í dag. Vörnin okkar kannski ekki nógu góð til að byrja með og það vantaði þetta extra hjá okkur, að skutla okkur á lausu boltana. Það lagaðist aðeins í seinni hálfleik en þá var það bara orðið of seint”. Munaði um að vera sigla lygnan sjó á meðan Grindavík hefur að öllu að keppa? „Ég vil ekki segja að það sé munurinn því þegar þú hefur engu að tapa þá áttu að geta komið og spilað af fullu hjarta, óhrædd við að gera mistök en Grindavíkurliðið er bara gott og ég vil meina að þær ættu að vera ofar í deildinni. Varðandi framhaldið þá er bara að klára þessa tvo síðustu leiki með fullri reisn. Við erum nýliðar og ætlum okkur að byggja stórveldi og það tekur nokkur ár. Við erum tilbúnar í þá vinnu, næst er það Valur og svo Hamar.”

Grindavík-Stjarnan 83-66 (30-14, 24-15, 21-15, 8-22)
Grindavík: Whitney Michelle Frazier 27/13 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 15/10 fráköst/3 varin skot, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 12/7 fráköst/5 stoðsendingar, Íris Sverrisdóttir 10/4 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 8, Björg Guðrún Einarsdóttir 6, Jeanne Lois Figeroa Sicat 3/5 stolnir, Hrund Skúladóttir 2, Petrúnella Skúladóttir 0/4 fráköst, Halla Emilía Garðarsdóttir 0, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0, Elsa Katrín Eiríksdóttir 0.
Stjarnan: Hafrún Hálfdánardóttir 19/6 fráköst, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 12, Adrienne Godbold 10/7 fráköst, Heiðrún Kristmundsdóttir 8, Margrét Kara Sturludóttir 8/16 fráköst, Eva María Emilsdóttir 6/4 fráköst, Erla Dís Þórsdóttir 2, Bára Fanney Hálfdanardóttir 1, Sigríður Antonsdóttir 0, Kristín Fjóla Reynisdóttir 0, Helena Mikaelsdóttir 0.

Texti: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson